föstudagur, 23. mars 2007

Lopasokkar aðlagast og þorna

Að vakna við fuglasöng og hlýja geisla sólarinnar á hverjum morgni lýsir lífi okkar hér Lilleström vel. Hér er styttist í bjartari tíma og af veðrinu undanfarna daga að dæma mun þetta sumar verða mjög gott (allaveganna fyrir klakabúa eins og okkur). Nú er bjartsýnisröddin farin að hljóma úr vitum okkar vegna þess að nú fyrst getum við farið að hreiðra um okkur hér í Lopasokkalandi af einhverri alvöru. Við erum ekki lengur langtíma gestir í ókunnugu landi.

Eftir að hafa búið hér í tæpa 3 mánuði erum við farin að kunna betur og betur á norsk samfélag með hverjum deginum. Við getum bæði hraflað okkur nokkurn veginn í gegnum fréttatímana í sjónvarpinu og Viktor er meira að segja komin með sinn uppáhaldsspurningarþátt í sjónvarpinu (ég sit reyndar við hliðná sem lifandi orðabók). Búið er að velja uppáhaldsmatvörubúð og nokkurn veginn bera saman verðmunin á Íslandi og Noregi ( sama og enginn). Ikeaferðir hafa verið óteljandi enda þegar farið er úr 50fm íbúð í 70fm vantar ýmislegt til að fylla uppí plássið. Hvað er þá betra en þessi sænska snilldarbúð sem nota bene er opin öll kvöld til 23!!

Viktor heldur áfram ströngu æfingarplani og í síðasta leik fékk kallinn heilar 20 mínútur!! Hann stóð auðvitað vel og átti þátt í einan marki liðsins gegn liði Valeregna en leikurinn endaði í jafntefli. Á mánudaginn heldur hann síðan af landi brott til Spánar enn á ný en í þetta sinn er förinni heitið til Marbella strandarinnar. Þar er ætlunin að dveljast í 12 daga í lokaundirbúningi fyrir deildina (Tippeligan) sem síðan hefst 9.apríl með heimaleik. Ég verð þar í stúkunni ásamt fögru föruneyti og verður eflaust mikið fagnað ef Viktor verður þess heiðurs aðnjótandi að koma inná enda aðalaðdáendurnir komnir til Lopasokkalands þá.

Ég hef alveg verið að lifa mig inní húsfreyjuhlutverkið sem hefur staðið mér ansi fjærri þar til nú. Hér hefur verið eldað á hverjum einasta degi síðan við fluttum enda löngunin eftir heimalöguðum mat verið ólýsanleg á hóteltímum. Eina sem vantar eru fleiri uppskriftir, heilinn minn virðist tæmast þegar komið er inní matvörubúð og það sama oftast keypt. Lýsi hér með eftir góðum uppástungum og ekki væri það slæmt ef um mömmumat væri að ræða (frekar langt að sækja í það hér )
Þrátt fyrir að vera með þvottvél í eldhúsinu höfum við aðgang að hinu fínasta þvottaherbergi í næstu blokk. Þar er ein þvottvél og þurrkuaðstaða. Þannig að ég hef nú tvisvar lagt leið mína með stóran þvottapoka yfir í næstu blokk. Mjög útlandalegt og skemmtilegt, mamma þú ættir nú að kannast eitthvað við þessar hefðir...?

Það er því farið að birta til í lífi Lopasokkana og sjáum við fram á enn bjartari tíma með hækkandi sól...

HA DE

miðvikudagur, 21. mars 2007

Okkar fagra slot


Hér gefur á að líta nýja skenkinn okkar sem handlagni heimilisfaðirinn setti saman með aðstoðarkokki sínum (fáránlega þungur að bera upp stigana).. gamli góði stólinn plummar sig líka rosalega vel hjá arninum (gott lestrarhorn fyrir lestararhesta)

Stofan er ótrúlega rúmgóð og sófarnir þægilegir eins og sjá má (stofuborðið fylgdi með íbúðinni en því verður skipt út í bráð...)

Barinn fékk auðvitað heiðursæti í stofunni ásamt eldhúsborðinu sem minnkar ótrúlega í hinni stóru stofu... en okkur þykir vænt um það því það er svo fínt....

Svefnherbergið stendur svo fyrir sínu nema það er fáránlega stórt skápapláss sem við eigum ennþá eftir að venjast... ekki einu sinni okkur tískuljónunum hefur tekist að fylla það... enn...

Eldhúsið er svo komið með "þórsgötulegan" blæ yfir sig og eins og þið sjáið erum við að reyna að gera okkar besta við að innleiða kúlið inn í Lúðastraum...
Það mun koma með kalda vatninu....

Vonandi sefa þessar myndir forvitnilegan þorsta ykkar augna enda fyrirspurnir um myndir búnar að vera óendalegar.... gaman...!!

Ha de

föstudagur, 16. mars 2007

Komin til að vera!!

Við viljum biðja gesti og gangandi velvirðingar að þessu sinnuleysi okkar varðandi skrif að undanförnu. Erum netlaus til þriðjudags en skutumst frá núverandi HEIMILIS til þess fyrrverandi (hótelsins) til að stelast á netið enda nauðsynlegur partur af lífi manns þegar maður býr í útlöndum!!

Ætlum bara að skrifa stutta kveðju þar sem það er erfitt að slíta sig frá hinu æðislega heimili sem við erum búin að útbúa okkur í hjarta Lúðaström! Myndir munu koma í næsta viku fyrir aðdáendur !!

Takk fyrir hjartnæm komment og það er greinilegt að margir hafa hugsað til okkar síðastliðin Föstudag þar sem flutningarnir gengu eins og í sögu... það er að minnsta kosti byrjað að grilla í upphandleggsvöðva á minni sem aldrei hafa verið til staðar áður!! fleiri sögur af því síðar....

Þangað til HA DE!!

p.s Hemmi : Kalt vatn og að smellla pönnum saman virkaði vel í landsliðsferðum hjá Vikka!! Gangi þér vel!!

fimmtudagur, 8. mars 2007

Föstudagur til fjars



Loksins eru tímar ferðataskna og hótelvista á enda fyrir okkur lopasokkana!! Hin gullfallega íbúð verður okkar á morgun klukkan 18.00!! Flutningarfyrirtækið virðist þó vera að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að gera þetta okkur erfiðara fyrir en við ætlum ekki að láta deigan síga, á morgun munum við gista í okkar eigins rúmi í okkar eigins rúmfötum. Get ekki beðið og við munum láta það gerast sama hvað það kostar... Ég mun meira að segja reyna að halda á níðþungu dýnunni okkar alein ef það er það sem þarf til að koma dótinu upp í íbúðina!!

Núna erum við búin að skipta um hótel og erum á Gardemoen í óbyggðum aftur.. en vitiði það er bara allt í lagi því við gistum í ÍBÚÐINNI á morgun !!!

Inga Rósa vinkona var hér í vinnuferð fyrr í vikunni (óvæntur glaðningur enda Osló ekki í alfaraleið fyrir þá sem við þekkjum) Þannig að við lopasokkarnir héldum í siðmenninguna til að fá fréttir og slúður að heiman beint í æð. Það var algjör vítamínsprauta að sjá kunnuglegt andlit loksins !! Inga takk fyrir að koma !!!

Þessa stundina kemst lítið að hjá okkur annað en að innrétta íbúðina í hausnum og skipuleggja flutningana. Fyrri flutningarhjálparkokkum er sko sárt saknað....það er svo gott að eiga góða að!!

Eftir mánuð munum við fá okkar fyrstu heimsókn hingað til Lúðaström g ekki er hún að verri endanum. Sonja, Vilhem Bjarki, Halla Guðrún, Gísli Arnar og monsa Sonjudóttir eru búin að staðfesta komu sína hingað 5. apríl og það verður sko kærkomið stuð!!! Hlökkum til!

Veit ekki hvernig netsambandið verður næstu daga en ég mun reyna að setja inn frekari fregnir af flutningunum sem fyrst!!

Biðjum ykkur að hugsa til okkar í hádeginu á morgun ... þá mun erfiðið byrja.... þangað til...

Ha de

fimmtudagur, 1. mars 2007

Af kennitölum og veikindum

Það var mjög einkennilega þægilegt að koma aftur hingað til Lúðaström eftir fjarveruna. Gott að kannast við sig... já ekki líður á löngu þangað til að við förum að kalla þennan krummaskurð heimili. Ég er eiginlega farin að prísa mig sæla að hafa ákveðið að festa rætur hér í staðin fyrir Osló, þar er nauðgunafaraldur þessa stundina (fréttatímarnir einkennast af þessum fregnum) og glæpnatíðni er víst að aukast með hverjum deginum. Lúðaström hefur því fengið á sig geilsabaug undanfarna daga.

Viktor greyið var svo fárveikur á þriðjudaginn, með mígreniskast og ældi á 15 mínutna fresti frá 15 um daginn til 22 um kvöldið. Læknarnir hér sögðu að þetta væri bara pest sem væri að ganga og sögðu honum að drekka bláberjasafa !? Þegar leikar stóðu sem hæst hjá Viktori greyinu var ég alvarlega farin að spá í að hendast með hann upp á spítala... en eitt babb var í bátnum því ég hef ekki hugmynd hvar hann er! Mjög mikilvægt að vera búin að spá í svona hluti áður en eitthvað alvarlegt kemur uppá. Verkefni vikunnar er því að komast að hvar næsta sjúkrahús og lögreglustöð er.... bara svona til öryggis.
Ekki þurfti nú samt að grípa til neyðarúrræða þetta kvöldið og nú er kallinum batnað og farinn að trítla á eftir boltanum á ný!

Í gær fékk ég loksins inngöngu inní hið norska samfélag.... komin með bráðmyndarlega 11 stafa kennitölu og bankareikning... sem og Viktor. Nú getum við loksins farið að gera eitthvað af viti hér og sett okkar mark á Noreg af fullri alvöru!!!

Sótti um háskólan í Osló í gær... Fjölmiðlafræði í fyrsta val og já ...kynjafræði í annað val.!? panikkaði aðeins og valdi það bara...veit ekki alveg afhverju... vonandi kemst ég inn í fjölmiðlafræðina. Fæ samt ekki að vita neitt fyrr en 26.júlí!!

Vegna fjölda áskorinna ákvað ég að setja þessa mynd inn á af hinum sköllótta Vikka...hann ber sig með eindæmum vel svona hárlaus ekki satt?
Hér er hann stoltur af "listaverkinu" sínu (eins og þið sjáið erum við orðin nett skrýtin af þessari hótelvist sem þó fer að styttast)

Ha de