fimmtudagur, 29. nóvember 2007

Skemmtileg helgi á undan prófatörninni


Takk fyrir komuna Steinunn okkar! Það var æðislegt að fá þig og hlæja sig máttlausa við arineldinn, fara i spa og versla smá!
Grænalukka og Lúðastraumur eru nú staðsettir á topplista fröken Bergs enda vorum við hjúin dugleg að flagga því fegursta sem Noregur hefur upp á að bjóða...!

Nú eru ekki fleiri heimsóknir skipulagðar fram að jólum sem við munum ,eins og flestir vita, eyða hér í rólegheitunum í Norge. Viktor liggur þessa stundina í flensu og volæði sem búin er að herja á allt liðið eins og það leggur sig. Hann gat því ekki annað en lagst líka liðfélögum sínum til samlætis.
Ég er að fara í lokapróf í heimspeki/siðfræði á mánudaginn þannig að ég sit og tygg ofaní sjálfan mig kenningar og hugmyndir á norsku. Platón, Aristóteles, Beauvoir, Foot og Singer er það eina sem ég hugsa um... Veit ekki hvor hefur það verr....

Litli kúlubúinn er búinn að fara vel um sig og við fengum þau skilaboð í dag að hún er búin að skorða sig s.s hausinn er kominn niður.... hún er að verða reiðubúin þessi elska en spurningin er hvort verðandi foreldrar séu tilbúnir ...
Get ekki neitað því að tilhugsunin um sjálfa fæðinguna hrellir mig og hef ég því haft þá reglu á að hugsa barasta ekkert um það. Nú er hún samt orðin svo fyrirferðamikil í maganum á mér að ég er farinn að vilja fræðast um hvernig í ósköpunum ég á að fara að því að koma henni út.... úff ...

Jæja ekki meira í bili
Veikinda-og heimspekikveðjur yfir hafið

föstudagur, 23. nóvember 2007

Húsbóndinn kominn heim....

... og Steinunn vinkona á leiðinni! Já nú er lífið ljúft í Lúðaström.... og mjög fínt að fá Viktor heim, þreyttan en ánægðan eftir skemmtilega Íslandsdvöl!

Ég er komin 34 vikur á leið og því ótrúlega stutt eftir. Stundum finnst mér eins og fröken fix sé að reyna að brjótast út úr maganum á mér. Getum horft á magann á mér ganga í bylgjur, alveg ótrúlegt!!
Það er greinilegt að móðureðlið er farið að segja til sín því ég ákvað að baka kanelsnúða í dag ,i tilefni af komu Steinunnar, og er það í fyrsta sinn í 10 ár sem ég nota kökukefli. Ýtti því til hliðar fyrir annað mikilvægara á sínum tíma.
Gerði óvart uppskrift fyrir 100 manns og munum við því lifa á kanelsnúðum fram til jóla. Hér er afraksturinn... og já útlitið segir ekki allt....
Erum nú á leiðinni út á flugvöll að sækja frú Steinunni og ætlum að reyna að sýna henni allar bestu hliðar Noregs um helgina, svo hún muni bera hróður Lúðaström til íslands og einnig svo hún fáist til að koma aftur!!
Birti eina bumbumynd enn fyrir "bestemor" á Íslandi og hinn flugglaða aðdáanda í Flórída... og jú ykkur öll hin líka!!

Já, álfurinn stækkandi fer....

ha de bra kæra fólk
yfir og út

föstudagur, 16. nóvember 2007

"Ég bið að heilsa"


Nú andar suðrið sæla vindum þýðum,
á sjónum allar bárur smáar rísa
og flykkjast heim að fögru landi Ísa,
að fósturjarðar minnar strönd og hlíðum.

Ó! heilsið öllum heima rómi blíðum
um hæð og sund í drottins ást og friði;
kyssi þið, bárur! bát á fiskimiði,
blási þið, vindar! hlýtt á kinnum fríðum.

Vorboðinn ljúfi! fuglinn trúr sem fer
með fjaðrabliki háa vegaleysu
í sumardal að kveða kvæðin þín!

Heilsaðu einkum ef að fyrir ber
engil með húfu og rauðan skúf, í peysu;
þröstur minn góður! það er stúlkan mín.


Í dag er dagur íslenskrar tungu! Eins og flestir vita er hann haldinn hátíðlegur á sjálfum fæðingardegi skáldsins Jónasar Hallgrímssonar. Þar sem ég sit nú hér alein í kuldanum í Lúðaström fannst mér við hæfi að birta ofangreint ljóð, því jú jú ég bið auðvitað að heilsa heim í heiðardalinn!!

Viktor er farinn frá mér (eða á ég kannski að dramatísera þetta og segja "okkur") yfir helgina í gleðina á Íslandi. Ég er hins vegar föst hér en ætla ekki að leggjast í neina sjálfsvorkunn af þessum sökum, ónei.... ég er búin að fullbóka læruplan helgarinnar en ritgerðarskrif eru þar efst á baugi. Ég er að skrifa lokaritgerð í seinni kynjafræðikúrsinum á þessari önn og mun hún fjalla hvort nútímasamfélagið hafi jákvæð eða neikvæð áhrif á stöðu kynjanna í dag. Spennandi ég veit....
En fyrir þá sem ekki vita þá er ég búin að ná fyrsta kúrsinum í minni stuttu háskólasögu og á því bara tvo eftir á þessari önn, Heimspeki og Kynjafræði frh.

Já, jávæðnin bara skín af mér þessa dagana þrátt fyrir einveruna og svo ekki sé minnst á kuldann mikla sem er farin að herja á Lúðaström af miklu afli. Ég lauk byrjendakúrs í arineldakveikingjum hjá Viktori áður en hann fór og á því að getað kveikt á þessari frumstæðu kyndingu eins míns liðs yfir helgina (mikil kynjaskipting hefur verið í þessum hluta húsverkana undanfarið). Það er orðið svo kalt að kerti og arinn fara af stað um miðjan dag og er síðan haldið gangandi allt kvöldið.

Krakkarnir í skólanum ráku upp stór augu þegar ég fór að kvarta yfir kuldanum hér og enda héldu þau að ég væri sönn víkingamær frá landi elds og íss og því allvön nokkrum frostgráðum. Ég varð því að skýra út fyrir þeim að á Íslandi er alltaf óveður, rok, rigning og slabb á veturna en hér er bara ,ógeðslega inn á beinum, nístingskalt alla daga en samt stillt. Svona ekta skíðaveður eins og maður man eftir síðan í gamla daga á Íslandi. Held að ég hafi ekki selt skólafélögum mínum neinar íslandsferðir með þessari ræðu minni varðandi íslenskt veðurfar.

Jæja ekki meira frá einbúanum í Noregi í bili...

Ha de

fimmtudagur, 8. nóvember 2007

Erum að verða barnvænni....

...með hverjum deginum. Við fengum Hildi Þurý Indriðadóttir til að prufukeyra íbúðina okkar. Eins og neðangreind mynd sýnir þurfum við að endurskoða ýmislegt. Hún kvartaði samt ekki og undi sér hið besta við að skoða dvd-safn heimilisins bak og fyrir.

Þökkum við Hildi Þurý kærlega fyrir vel unnin störf.

Þessa stundina sit ég inní stofu með fæturna upp í loft á meðan Viktor er að galdra eitthvað unaðslegt fram í eldhúsinu af lyktinni að dæma. Þetta kæru vinir eru kostirnir við að vera óléttur, smá auka dekur í hverdagsleikanum. Úti er grenjandi rigning og arininn kominn á fullt hér í stofunni. Jólalög eru byrjuð að hljóma í búðunum hér og er jólaskapið farið að láta á sér kræla hjá okkur báðum. Þó þarf fyrst að klára prófin og skila einni ritgerð enn. Viktor fær að taka sín próf hér í Noregi og erum við svo heppin að vera bæði búin á sama degi, 13.des.
Læt fylgja með eina bumbumynd vegna mikilla áskorinna, 30 vikur kæru vinir og fer stækkandi..... Þarna inni lætur litla snúllan fara vel um sig, ótrúlegt!!

Takk fyrir hlýjar kveðjur, skemmtileg skilaboð halda manni gangandi i vetrarmyrkrinu!
Maturinn a la´Viktor tilbúinn... eigiði gott kvöld allir saman!

sunnudagur, 4. nóvember 2007

Næst siðasti manuður arsins.... og endalok timabilsins

Fyrir nákvæmlega ári síðan steig ég fyrst á land hér í Lilleström grunlaus um hvað komandi ári mundi bera í skauti sér.
Nú er fyrsta (fótbolta) tímabil Viktors í Noregi lokið og er óhætt að segja að maður er fegin að þessu óheilla boltaári sé lokið. (vonandi...)
Meiðsli Viktors hafa einkennt dvöl okkar hér en sem betur fer hefur hann ekki misst móðinn í mótlætinu. Það sem drepur mann ekki styrkir og þolinmæði þrautir vinnur allar eru mottó ársins hjá okkur hjúum! Þó er úrslitaleikur bikarsins eftir næstu helgi en ekki líklegt að FÞ muni nota Viktor í þeim leik þannig að einbeitingunni er beint að næsta ári og tímabili.

Með barn í vændum og fámennt en góðmennt norskt jólahald framundan er notalegt að komin sér nóvember. Norski kuldinn er farin að nísta mann inn að beinum og arinnlykt liggur í loftinu í Lúðaström enda allir íbúar bæjarins með komnir með kyndinguna í botn á þessum árstíma að meðtöldum undirrituðum. Mjög sjarmerandi og róandi að hlusta á snarkið í eldinum á kvöldin, sem fara mest í lærdóm þessa dagana vegna þess að prófin nálgast óðfluga.

Binni og Halla Guðrún eru búin að vera hér síðan á fimmtudag og komu klyfjuð af góssi frá farsælda fróni fyrir okkur. Það er búið að vera yndislegt að hafa þau. Í dag skoðuðum við byggðarsafnið á Bygdö og loppemarkaðinn á Grunerlokka. Ekta þægilegur og menningarlegur sunnudagur.
Nú eru 30 vikur liðnar af meðgöngunni og er óhætt að segja að róðurinn sé farinn að þyngjast. Spennan eykst eftir komu frumburðarins. Litli álfurinn viðist vera ánægður með dvölina í bumbunni og lætur finna fyrir sér helst á morgana og kvöldin.

knús frá okkur í Lilleström