laugardagur, 30. júní 2007

Uppskurði lokið og klakaför undirbuin

Jæja þá er síðasta vika júnímánaðar að renna sitt skeið og er hún ekki búin að vera viburðarlítil. Ég ákvað að nýta heilann húsbónda áður en hann hélt í uppskurð og var því haldið í heljarinnar Ikeaferð með mæðgunum ( Sonju og Írisi) þar sem fest voru kaup á fallegt sófaborð og annað smálegt. Það var því heldur þungur og troðinn Polo bíll sem brunaði frá Ikea til Lúðaström með okkur fjögur og plús heilt sófaborð og annan varning. Talandi um fílahjörð í bjöllu. Útsöluþyrstir Norrmennirnir hlógu og bentu á meðan við vorum að raða vandlega í bílinn á bílaplaninu. Viktor erfir skipulagshæfileikana frá föður sínum. það er alveg greinilegt.

Á föstudaginn rann svo stóri spítaladagurinn upp og var ræs á línuna klukkan hálf 7 enda þurftum við að keyra í morguntrafíkinni til Osló. Klukkan 8 var Viktor lagður inn og kominn heim aftur um tvöleytið. Ég þurfti að opna búðina klukkan hálf tíu þannig að Sonju tók að sér ábyrgðina að keyra sjúklinginn aftur til Lúðaström, hefðum ekki getað verið án hennar!
Aðgerðin sjálf gekk eins og í sögu. "Ballerínubeinið" var á stærð við krónupening og var það brotið og laust inní ökklanum. Ekki skrýtið að Viktori er búið að vera svona illt. Læknarnir voru ánægðir með þetta og mun endurkoma Viktors í fótboltann vera fyrr en áætlað var eða eftir 4-6 vikur.
Greyið er samt sem áður með umbúðir á fæti og hækjur í hendi, getur því lítið gert annað en að liggja. Eins gott að nú eru tvær þjónustustúlkur á heimilinu til að stjana við strákinn. Hækjurnar munu þó líklega hverfa eftir viku eða svo.

Nú styttist í kærkomna heimkomu á okkar hálfu og erum að undirbúa komuna í íslensku blíðuna enda montsímtöl á heiman búin að vera þó nokkur síðustu daga!! Til hamingju með sólina Ísland. Af veður spánni að dæma munu hún samt hverfa fyrir okkur lopasokka um leið og við lendum og hið venjulega íslenska sumar taka við.... jess!!

Að lokum vil ég óska Langafa Sigurbirni innilega Til hamingju með 96 ára afmælið í dag... kærar kveðjur yfir hafið afi minn!!

Sjáumst eftir smá og þangað til....

HA DE

mánudagur, 25. júní 2007

Urhellisrigning hja lopasokkum

Nú er Sonja búin að vera hjá okkur síðan fyrir helgi, blessunin ákvað að gera ykkur klakabúum mikinn greiða og taka rigninguna með sér hingað. Skilst að heima sér búið að vera blíðskaparveður en hér er sko búið að vera skýfall alla helgina. Greyið Sonja... vonandi fer Noregur að sýna sitt rétta andlit í bráð.

Íris litla er orðin mikill skemmtikraftur og heldur uppi miklu fjöri hér á heimilinu. Talar, hjalar og leikur við hvern sinn fingur. Gaman að fá svona fjörkálf í heimsókn.

Eins og flestir vita er lokins búið að finna út hvað er að Viktori greyinu. Hann virðist vera með "ballerínubein" í ökklanum sem er brotið. Það eru ekki allir svo heppnir að vera með þetta einstaka bein þannig á föstudaginn mun Viktor fara í uppskurð g beinið fjarlægt. Gaman að segja frá því að þessi meiðsl eru algengust hjá ballerínum. Einmitt!! Endurhæfingin tekur svo 6-8 vikur en sem betur fer mun kappinn alveg geta æft og haldið sér í formi á meðan.

Nú er vika í að við komum heim og bæði farin að hlakka mikið til. Telma vinkona er svo mikill engill að hún bauð okkar fínu íbúðina sína á Laufásveginum. Yndi...!! þannig að við verðum í miðbænum á meðan við erum á Íslandinu góða.

Að lokum vil ég óska afmælisbarni dagsins innilega til hamingju með daginn!!!

Höldum upp á það alla næstu viku....kossar og knús yfir hafið!!

Ha de

mánudagur, 18. júní 2007

Pönnsuparti.. fyrir tvo takk!!

Til að sýna það og sanna að við erum orðin búrsleg ákváðum við að birta hér myndir af okkar fyrsta pönnukökubakstri!! Já þið eruð að lesa rétt.. við ákváðum að baka íslenskar pönnukökur á venjulegum mánudegi. Verkaskiptingin í eldhúsinu var líka mjög jöfn, ég hrærði deigið og Viktor sýndi snilli sína með pönnuna!! Fyrstu 10 pönnukökurnar fóru beinustu leið í ruslið þó enda pönnukökubakstur listform að mínu mati. Ömmur Íslands eiga mikla virðingu skilið fyrir að hafa gert þetta án þess að blikna frá örófi alda.
Að lokum tókst okkur þetta og þjóðhátíðardaguri Íslands var haldinn hátíðlegur (reyndar degi of seint) með fámennu en góðmennu pönnsupartí í Lúðaström. Næst þorum við líklega að bjóða fleirum...

ha de

föstudagur, 15. júní 2007

Bursdag i dag


Til hamingju með afmælið elsku besta Sonja !! Við munum skála fyrir þig í kvöld og hlökkum til að fá ykkur mæðgur til okkar eftir eina viku !!

*** knús

Einnig viljum munum við skála fyrir Kristjáni frænda Viktors sem einnig fyllir ár í dag... Til hamingju með daginn !!

Hipp hipp húrra

fimmtudagur, 14. júní 2007

Drunur og þrumur

Í nótt vöknuðum við upp við háværar drunur, það var eins og 10 flugvélar væru í lágflugi yfir húsinu. Eins og hendi væru veifað skall svo á þessi svakalega rigningarDempa ( með stóru D). Það var alvöru útlandabragur yfir rigningunni sem var einsog girnileg sturta á götum Lúðaström. Kærkomið regn eftir mikið og gott þurrkutímabil.

Nú er því hitabylgjunni aflétt og viftan komin inní skáp. Eigum örugglega (eða meira vonandi) eftir að þurfa að nota hana aftur seinna í sumar.

Viktor er allur að komast í lag og náði meira að segja að spila sinn fyrsta leik í 2 mánuði um daginn. Hann stóð sig mjög vel að mínu mati, átti góðar stungusendingar og nokkur skot á markið.( er að spá í að leggja íþróttablaðamennsku fyrir mig) Eitthvað vantar þó upp á að hann komist í betra form en vonandi verður það komið eftir fríið í Júlí. Það fer að koma tími á það að hann fái að setja sinn svip á norska knattspyrnu. Lilleström er sem stendur í 2 sæti deildarinnar eftir 3-1 tap gegn Brann á sunnudaginn.

Ég er loksins búin að klára alla pappírsvinnu vegna skólamála og umsóknin mín með einkunnum komin inn í kerfið. Það er búið að vera mikið stress og Norrmenn ekkert sérstaklega þjónustulundir. Fólk er hins vegar búið vera að hræða mig og segja að líkurnar á að komast inn í námið séu ekki hliðhollar mér en ég fæ ekkert að vita fyrr en 26.júlí. Þangað til er bara að vona það besta og undirbúa plan B.

Annars er hversdagsleikinn góður í Lúðaström...

Kram

sunnudagur, 10. júní 2007

Bongobliða

Noregur hefur síðustu daga komið okkur mikið á óvart með svokölluðu spánarveðri... ekki poppaði 30 stiga hiti og sól upp í hugann á mér þegar við fluttum hingað í vetrarhörkunni. En þessi fyrsta vika í júní hefur slegið öll hitamet ( síðast var svona heitt árið 1880 samkvæmt VG - blaðinu) og á föstudaginn sýndi hitamælirinn í bílnum heil 35 stig í skugga!! Ég er ekki að ljúga... og eru við lopasokkarnir búin að vera dugleg að senda montskilaboð heim í rokið og rigninguna. Það er alltaf klassískt.

Viktor er ekki fíla þennan hita enda segist hann svitna í hverju einasta skrefi og fékk hann mígreni á æfingu um daginn... ekki mundi ég vilja æfa úti í þessum hita.. en enginn miskunn hjá Nordlie þjálfara sem pískar strákana áfram sama hvað!!
Við þurftum meira að segja að kaupa viftu inn á heimilið til að gera lífið í hitanum bærilegra fyrir okkur og sofum við því undir köldum blæstri sem er ómissandi. Einnig fékk ég loksins tvo alvöru sólabaðsstóla á svalirnar okkar þannig að ég geti sleikt sólina á meðan Viktor situr inní stofu við viftuna, hann er ekki sjúkur í að fara í sólbað. Þannig að sólarsjúkir eru velkomnir hingað til að nota hinn stóllinn, mér fer að vanta selskap í brúnkunni enda Viktor ekki að gefa mér mikla samkeppni!

Afmælisdagurinn minn var æðislegur, bongóblíða eins og venjan er á þessum merkisdegi. Gyða vinkona minnti mig á að gott veður á afmælisdag þýðir að maður hefur verið stilltur og góður á síðasta ári... þar hafiði það, ég var svoo stillt að veðrið ákvað að haldast í 10 daga og slá met ....!!
Viktor fórnaði sér í sólabað á ströndinni með mér og fórum síðan á indverskan stað um kvöldið.
Takk fyrir allar skemmtilegu kveðjurnar kæra fólk!

Við erum loksins búinn að panta okkur flug heim en áætluð koma er 2.júlí... þannig að verið viðbúin skyndiheimsóknum þessa stuttu viku sem við munum heiðrað klakann með nærveru okkar.

Heimsóknir til lopasokkalands eru að aukast og er gestaherbergið nánast uppbókað frá 22 júní til fyrsta ágúst gaman gaman!! Það mega fleiri fara að fordæmi Sonju systur Viktors sem pantaði sér far til okkar vikunni gagngert til að losna aðeins við íslenska rokið. Hún er væntanleg eftir 12 daga jess!!

Jæja ætla að fara að undirbúa morgunverð á svölunum enda of heitt til að borða inni...

Ha de bra

Kram

laugardagur, 2. júní 2007

Afmælisbörn dagsins


Til hamingju með daginn Afi Kjartan!!
Flottur á þessari mynd með fótboltadómararéttindin sín í hendinni... já kallinn leynir á sér!!

Hin gullfallega Magnea fyllir sitt fyrsta ár í dag!!! Til hamingju litla uppáhalds uppáhald.... ********

Hinn óborganlegi hárlæknir Jón Atli Helgasson á einnig afmæli í dag!! Til hamingju ***** vild við gæti verið með ykkur á skála í kampó í tilefni dagsins!!!

Einstaklega fríður hópur af afmælisbörnum hér á ferð

Knús