sunnudagur, 30. september 2007

Tap.. risa tap

Lsk 1 - 5 Brann

Gulu fuglarnir steinlágu fyrir íslendinga- og topp liðinu frá Bergen.

"xxxxx xxxxxxxx" eins og þjálfaraefni hinna gulu er kallaður hér á Alexander K. götunni ákvað að Viktor væri best geymdur á bekknum við lítinn fögnuð okkar!

Þetta var þó hressandi leikur með nær fullum leikvangi af áhorfendum og fullt af flottum mörkum.

Hefði bara vilja sjá okkar mann inná bjargandi málunum því þar á hann heima.....

Næturlif Osloar kannað og heimsoknarhryna i Luðaström



Loksins var látið verða af því að við íslensku (+ ein norsk) stúlkurnar í Oslóarsvæðinu hittumst. Farið var á einn vinsælasta tapasbar borgarinnar og svo tók við örlítill könnunarleiðangur um bestu barina.
Rosalega var gott að fara aðeins í djammgírinn og fékk ég mikla athygli út á kúluna (sem stækkandi fer). Fataskápurinn hefur skroppið saman síðustu daga en á móti kom að ég hef sjaldan verið jafn afslöppuð að gera mig til. Enda skipti öllu að litli álfurinn mundi láta sér líða vel. Ákveðið var að gera ofangreindan viðburð að mánaðarlegum hitting og mun ég reyna að láta sjá mig á meðan ég er ekki offyrirferðamikill.

Mikil heimsóknarhryna hefur nú skollið á Lúðaström, Halli og Berglind eru búin að vera hjá okkur síðan fyrir helgi en munu kveðja Noreg á morgun. Þá mun afi KJÓL heiðra okkur með nærveru sinni en heldur svo áleiðis til Skagen og Kaupmannahafnar. Því næst munu KR félagarnir Simmi og Bjöggi fagna sæti síns liðs í Landbankadeildinni með leiðangri til Norges við mikinn fögnuð okkar hér. Um leið og þeir kveðja koma síðan mínir ástkæru foreldrar og munu dvelja hjá okkur yfir langa helgi....

Já það mun vera fjör hér á Alexanders Kiellandsgötu næstu vikurnar sem við tökum fagnandi og mega fleiri taka sér ofangreinda einstaklinga til fyrirmyndar!!

Í kvöld munum við halda á einn aðalfótboltaleik tímabilins því LSK tekur á móti toppliði deildarinnar Brann klukkan 20.00. Uppselt er á leikinn fyrir löngu síðan og býst ég við mikillri stemmingu. Viktor mun verma bekkinn og allaveganna mun hann reyna að gera það eftir bestu getu, hvort tækifærið gefist i kveld en svo allt önnur saga.

Kveð með einni góðri af mér og Jóhönnu síðan á föstudagskvöldið

Ha de

föstudagur, 21. september 2007

Takk fyrir innlitið


Signý og Palli komu okkur að óvörum til Noregs fyrir stuttu síðan. Skötuhjúin voru í helgarferð til Lopasokkalandsins í fyrsta sinn og lagðist hin dimma Oslóarborg vel í hjúin.
Við og Halla Guðrún náðum að hitta þau í kaffi ásamt smá spássitúr áður en þau héldu á vit næturlífs Oslóar í boði vinnu Signýjar.
Signý mundi eftir að setja að setja filmu í myndavélina og var svo góð að senda okkur sýnishorn af útkomunni sem birtist hér til að setja smá lit á síðuna.

Takk fyrir okkur!

fimmtudagur, 13. september 2007

Cogito, ergo sum

Það passar ekkert betur en sitja i stærsta bíósal Oslóarborgar sem gengur undir nafninu Colosseum og hlusta á áhugaverðan fyrirlestur um heimspekinginn Descartes. Hann er sá fyrsti sem hefur vakið áhuga minn og í fyrsta sinn í langan tíma sem ég les kafla í heimspekibókinni minni án þess að geispa. Mér fannst líka ótrúleg grátbroslegt þegar kennarinn var alltaf að tala um að Descartes "frös ihjäl i Stockholm"...greyið!
Ofangreindur kuldaboli er farin að láta á sér kræla hér í Norge eftir frekar heita helgi. Halla Guðrún heiðraði okkur með nærveru sinni sem var mjög notalegt enda lítið sem maður þarf að gera á heimilinu þegar Halla Guðrún er nálægt. Hún gaf meðal annars svölunum okkar þessa fínu andlitslyftingu enda voru brúnu uppþornuðu blóminn á svölunum okkar blokkinni til skammar. Áttræða konan sem býr við hliðná okkur brosti til okkar í fyrsta sinn þegar við vorum að planta blómum, ein ánægð að við ákváðum loksin að skipta. TAKK FYRIR KOMUNA HALLA.

Annars eru bara þrjár ritgerðir sem ég þarf að skila í þessum mánuði þannig að ég sit sem fastast við tölvuna þessa dagana. Viktor æfir og æfir og er búinn að vera að fá stjörnur í dagblöðunum hér fyrir frammistöðu sína í varaliðsleikjunum. Þetta virðist því allt vera á réttri leið en hann segist vera orðinn um 90% góður í ökklanum. Þá er bara að bíða eftir að hann hljóti náð þjálfarnas í komandi leikjum en Lilleström er í mikilli toppbaráttu við Brann á lokaspretti deildarinnar. Því er aldrei að vita hvenær eða hvort tækifærið muni gefast á þessu ári.
Litli sprelligosinn er að hafa það mjög gott og er búin að velja kennslutíma mína sem tíma leikfimisæfinga og heljarstökka. Get ekki varist brosi þegar allt fer á fullt i annars alvarlegu umhverfi. Þetta verður raunverulegra með hverjum deginum og erum við nú byrjuð að huga að barnadótakaupum enda ekki lítið sem þessi litli álfur þarf á að halda.

Jæja ætla ekki að hafa þetta lengra í bili.

Ha de

mánudagur, 3. september 2007

Filosofisk filosofia

Þegar ég lagði fyrst heim heimspekinnar fyrir mér var ég ekki skriðin yfir tvítugt og staðsett í hinu verndaða umhverfi menntastofnunarinnar við Sundin. Kennarinn minn hét grísku nafni og lagði sig allan fram við að sýna mér að þetta fag hentaði ekki rökhugsuðinum mér. Ég einsetti mér að eftir að hafa náð blessaða stúdentsprófinu mundi heimspekibækurnar fara uppá hyllu til þess eins að safna ryki. Ég, Platón, Aristóteles og Descartes eigum nákvæmlega núll sameiginlegt.
Ekki datt mér þá í hug næst mundi ég sitja í 1000 manna fyrirlestra sal með 999 ókunnugum hlustandi að tveggja tíma fyrirlestra um ofangreinda óvini mína á NORSKU. Já, núna get ég sagt að ég hefði átt að hlusta betur á grískættaða kennarann í den. Hann talaði allaveganna mitt eigið tungumál.
Sænska og Norska eru mjög svipuð í rituðu máli en talmálið getur verið flókið enda mállýskurnar hér óteljandi. Stundum held ég í alvörunni að fólk sé ekki að tala norsku heldur bara að syngja eitthvað lag. Ég hef sjaldan einbeitt mér jafn mikið í kennslustundum. Vonandi skilar það sér í lok annar.

Dagurinn í gær var leiðinlegur, Viktor var í Stavanger, leikurinn fór 1-1, Viktor fékk ekki að koma inná, ég keyrði fram á tvær rottur á stærð við ketti á leiðinni heim frá Osló í gærkvöldi, ein var dauð og hin var sprelllifandi. Var með ógeðishroll niðrá bak restina af leiðinni.

Eina góða við daginn í gær var að elsku besti Afi minn fyllti 75 ár í gær!! Til hamingju með daginn elsku (lang) Afi ***

ha de

sunnudagur, 2. september 2007

Litið stelpuskott mun það verða... (örugglega)

..og ég er búin að halda það allan tímann. Ljósmóðirin sagði að í flestum tilvikum hefði mamman rétt fyrir sér, greinilegt að það byrjar strax enda löngu vitað að mamma veit alltaf best.
Þetta er samt aldrei 100% öruggt og margir búnir að deila með okkur sögur af fólki sem fékk að vita vitlaust í sónarnum.

Við fengum að sjá spítalann í fyrsta skiptið á þriðjudaginn... hann er STÓR og yfirþyrmandi. Gott að fá smá tíma til að melta hann og venjast tilhugsuninni um að þurfa að dvelja þar. Ljósmóðirin var norskumælandi finni og Viktor bað um þýðingu fyrir öllu sem hún sagði. Mjög fyndin tungumála blanda.
Litli álfurinn var ekkert par hrifin af afskiptaseminni og lét sko aldeilis finna fyrir sér á meðan skoðuninni stóð. Í hvert skipti sem ljósan ýtti sparkaði hún á móti. Karaktereinkennin komin strax og frábært að fylgjast með. Ljósmóðirinn sagðist sjaldan hafa séð jafn aktívt barn eftir bara 20 vikur.

Annars er lífið bara búið að vera ljúft síðustu daga. Viktor er komin í flott form og gengur bara vel á æfingum.
Í morgun lagði hann af stað til Stavangurs og mun vera þar fram á Mánudag. Uwe Rösler, þjálfarinn sem keypti Viktor til Lsk er að þjálfa Víking Stavanger núna og Tom Nordlie núverandi þjálfari Lsk var að þjálfa Víking síðasta sumar. Viðureign kvöldsins er því ekki endast barátta um annað sætið heldur líka ákveðin sýniþörf þjálfara.

Ég mun leita skjóls hjá Indriða, Jóhönnu og Hildi litlu í kvöld enda ekki par gaman að vera aleinn í Lúðaström. Þar ætla ég að horfa á leikinn sem byrjar 20.00 og vona það besta. Tækifærið hlýtur að vera á leiðinni.

Góða helgi allir saman