Að vakna við fuglasöng og hlýja geisla sólarinnar á hverjum morgni lýsir lífi okkar hér Lilleström vel. Hér er styttist í bjartari tíma og af veðrinu undanfarna daga að dæma mun þetta sumar verða mjög gott (allaveganna fyrir klakabúa eins og okkur). Nú er bjartsýnisröddin farin að hljóma úr vitum okkar vegna þess að nú fyrst getum við farið að hreiðra um okkur hér í Lopasokkalandi af einhverri alvöru. Við erum ekki lengur langtíma gestir í ókunnugu landi.
Eftir að hafa búið hér í tæpa 3 mánuði erum við farin að kunna betur og betur á norsk samfélag með hverjum deginum. Við getum bæði hraflað okkur nokkurn veginn í gegnum fréttatímana í sjónvarpinu og Viktor er meira að segja komin með sinn uppáhaldsspurningarþátt í sjónvarpinu (ég sit reyndar við hliðná sem lifandi orðabók). Búið er að velja uppáhaldsmatvörubúð og nokkurn veginn bera saman verðmunin á Íslandi og Noregi ( sama og enginn). Ikeaferðir hafa verið óteljandi enda þegar farið er úr 50fm íbúð í 70fm vantar ýmislegt til að fylla uppí plássið. Hvað er þá betra en þessi sænska snilldarbúð sem nota bene er opin öll kvöld til 23!!
Viktor heldur áfram ströngu æfingarplani og í síðasta leik fékk kallinn heilar 20 mínútur!! Hann stóð auðvitað vel og átti þátt í einan marki liðsins gegn liði Valeregna en leikurinn endaði í jafntefli. Á mánudaginn heldur hann síðan af landi brott til Spánar enn á ný en í þetta sinn er förinni heitið til Marbella strandarinnar. Þar er ætlunin að dveljast í 12 daga í lokaundirbúningi fyrir deildina (Tippeligan) sem síðan hefst 9.apríl með heimaleik. Ég verð þar í stúkunni ásamt fögru föruneyti og verður eflaust mikið fagnað ef Viktor verður þess heiðurs aðnjótandi að koma inná enda aðalaðdáendurnir komnir til Lopasokkalands þá.
Ég hef alveg verið að lifa mig inní húsfreyjuhlutverkið sem hefur staðið mér ansi fjærri þar til nú. Hér hefur verið eldað á hverjum einasta degi síðan við fluttum enda löngunin eftir heimalöguðum mat verið ólýsanleg á hóteltímum. Eina sem vantar eru fleiri uppskriftir, heilinn minn virðist tæmast þegar komið er inní matvörubúð og það sama oftast keypt. Lýsi hér með eftir góðum uppástungum og ekki væri það slæmt ef um mömmumat væri að ræða (frekar langt að sækja í það hér )
Þrátt fyrir að vera með þvottvél í eldhúsinu höfum við aðgang að hinu fínasta þvottaherbergi í næstu blokk. Þar er ein þvottvél og þurrkuaðstaða. Þannig að ég hef nú tvisvar lagt leið mína með stóran þvottapoka yfir í næstu blokk. Mjög útlandalegt og skemmtilegt, mamma þú ættir nú að kannast eitthvað við þessar hefðir...?
Það er því farið að birta til í lífi Lopasokkana og sjáum við fram á enn bjartari tíma með hækkandi sól...
HA DE
föstudagur, 23. mars 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
4 ummæli:
Átti þessa dýrindis uppskrift í tölvunni í vinnunni og fannst upplagt að senda hana inn á þessa sólgulu síðu :)
Kjúklingur í himneskri sósu
5-6 kjúklingabringur
1 ½ bolli hvítvín (má vera mysa,appelsínu- eða eplasafi)
½ bolli balsamikedik
1 bolli ólífuolía
4 rif hvítlaukur
½ bolli ferskt oregano (hægt að nota þurrkað)
½ bolli púðursykur 8 (má vera sykur, hunang, sýróp)
1 bolli sveskjur eða aðrir þurrkaðir ávextir
½ bolli grænar ólífur eða svartar.
Kjúklingabringurnar eru skornar til helminga og settar í eldfast mót. Salti og pipar stráð yfir. Hvítvíni, ediki,olíu, mörðum hvítlauk, oregano og púðursykri er blandað saman í skál. Blöndunni hellt yfir kjúklinginn. Ólífum og sveskjum er dreift yfir bitana. Þetta er bakað í ofni 220°C í 20-25 mín.
Ef notaður er kjúklingur með beini þarf að baka hann í ca. 40 mínútur.
Hægt er að sleppa kjúklingnum og nota grænmeti í staðinn sem uppistöðu.
Til viðbótar ef vill:
Gott er að bæta kapers og smá vökva út í dreifa stenselju yfir áður en rétturinn er borinn fram.
Borið fram með hrísgrjónum, brauði og góðu salati.
Úr bókinni Hristist fyrir notkun...
k. Edda
Hmm bjóst ekki við þessum "mömmu" mat frá mömmu.
Sumarleg síðan svona sólgul
Já,húsmæðan farin að segja til sín hjá minni. Þvottar, matur og Ikeaferðir. Ég skal gefa þér grunnuppskrift að pizzadeigi sem endalaust má leika sér með.
5 dl hveiti
25 gr ger
2 dl volgt vatn
2 msk olía
1 tsk salt.
Vökva blandað í þurrefni og slegið saman og látið hefast í 30 mín. Svo er bara að bregða á leik með það sem sett er ofan á.
Kaupir dýrustu nautasteikurnar í kjötborðinu í Fötex/Nóatúni. Notar ímyndunaraflið og gerir eitthvað ótrúlegt krydd á þær.
Með þeim er t.d. hægt að skera lauk, gulrætur og sætar kartöflur og baða upp úr sírópi inní ofni. Setja rjómaost í sveppi ...og steikja kartöflur upp úr olíu og karrýi. Yfir þetta hellir maður svo helling af Jensens Favorite Souse.
Kveðja frá Öresund
Skrifa ummæli