þriðjudagur, 25. desember 2007

Gleðileg jólin


Gleðileg jól kæra fjölskylda og vinir nær og fjær!!
Við áttum alveg svakalega notalegt og þægilegt aðfangadagskvöld hér í Lilleström i gær. Halla Guðrún eldaði alveg dýrindis hamborgarhrygg og himneska aspassúpu og að venju stóðu allir á gati að máltíð lokinni.
Við fengum bæði (eða réttara sagt öll þrjú) fullt af fallegu í jólagjöf og sendum við þúsund þakkir yfir hafið. Svona er ég orðin stór og útstæð... en reyndi þó að punta mig eftir bestu getu. Fæ sjálf sjokk að sjá myndir af mér en nú eru við komnar rúmar 37 vikur!

Eftir hefðbundið kvöld af pakkaupptöku og jólakortalesningum töluðum við í gegnum netið við nánustu fjölskyldu. Sonju, Grétar, Vilhelm og Íris en á þeim bænum var svo mikið jólastuð að jólatréð datt yfir stofugólfið.
Svo var talað við mömmu, pabba, Védísi og Steinunni en þar á bæ voru allir að gera sig undirbúna fyrir miðnætursmessu í Dómkirkjunni þar sem Védís og Hamrahlíðakórinn sáu um jólatónana.
Pabbi sýndi okkur meðal annars sjálfsmyndirnar sem hann sendi til fjölskyldu og vina áritaðar með gullpenna eins og alvöru Hollywoodstjörnu sæmir. Hér gefur að líta eina svoleiðis... já faðir minn er mikill húmoristi eða alveg svakalega mikill egóisti....

Innilegar jólakveðjur frá okkur hér í Noregi og við hlökkum til að taka þátt í íslenskum jólum að ári liðnu með ykkur!!!

Ha de

sunnudagur, 23. desember 2007

Góðan Þorlák !


Nú eru jólin komin hér hjá okkur í Litla straumi! Halla Guðrún og Gísli Arnar eru komin og við komin í jólaskap. Hangikjötslyktin ilmar nú um alla íbúð og við vorum að ljúka við að koma jólatrénu upp og skreyta. Fyrsta jólatréð.... tímamót ekki satt..?! Grenitré ilma alveg unaðslega ... fyndið hvað maður gleymir því milli jóla.

Í gær var haldið í hinn svolkallaða "harrytur" til Svíþjóðar. Það er að segja þá fórum í bíltúr yfir landamærin til Svinasund til að fylla ísskáp og frysti af ódýrri matvöru eins og alvöru norrmönnum sæmir. Svíarnir fara hins vegar til Danmerkur í sömu tilboðstúra en Danirnir til Þýskalands, góð hringrás! Þetta er cirka 1 og hálfstíma keyrsla frá Lilleström og borgar sig margfalt í verði. Já, ég er í alvörunni orðin húsmóðir og byrjuð að bera saman mataverð...
Það fylgdi því mikil nostalgíutilfinning að komast í sænska matvörubúð og sjá matvöru og hluti sem einu sinni voru partur af hverdagsleikanum í Uppsölum fornum daga. "Bærinn" Svínasund er hins vegar upplifun út af fyrir sig.... get eiginlega ekki lýst því öðruvísi en okkur leið eins og við værum komin inn í suðurríkin i BNA þar sem hjólhýsamenningin og blikkandi ljósaskilti eru allsráðandi.

Annars líður okkur bara mjög vel. Bumban mín er búin að síga mjög á síðustu tveimur dögum og litlan farin að halda fyrir mér vöku með brölti og smá leikfimisæfingum. Enda er alveg nauðsynlegt að æfa sig vel áður en maður tekur fyrstu andatökin í þessum heimi. Allt er tilbúið fyrir komu hennar og nú er bara verið að taka því rólega og láta Höllu og Gísla Arnar dekra við okkur. Yndislegt!

Nú sitjum við í stofunni, njótum rólgheitanna og lokaútkomu jólatrésins.... fallegt ekki satt? Takið eftir frostslegnum trjánum í bakgrunninum sem setja punktinn yfir i-ið þessi jól 2007.

Rólegheitakveðjur yfir hafið frá okkur fimm í Litla straumi

sunnudagur, 16. desember 2007

Prófin búin og jólin velkomin!

Úti er 10 stiga frost og hrím yfir öllu. Kertaljós fara af stað hér við fyrsta hanagal til að hita upp íbúðina og ekki slökknar á arninum á Alexander Kiellandsgötu. Það er óneitanlega jólalegt að kíkja út um stofugluggann með kakó við höndina þótt að heimþráin sé farin að segja til sín. Sem betur fer styttist í að Halla Guðrún og Gísli Arnar láti sjá sig og hlökkum við mikið til að fá smá smakk af Íslandi til að hrinda jólunum af stað. Það verður yndislegt að fá þau til okkar,
I dag eru þrjú ljós farin af stað á aðventukransinum og húsfreyjan henti í múffins í tilefni dagsins. Annaðhvart er móðureðlið að magnast með hverjum deginum eða það að mér leiðist gríðarlega mikið.
Nú erum prófin búin hjá okkur báðum sem er mikill léttir enda tekur á taugarnar að sitja við og lesa allan sólahringin. Nú tekur þvi bara við biðin mikla eftir frumburðinum sem má alveg fara að láta sjá núna. Í tilefni prólokanna var farið í Ikea og fjárfest i kommóðu/skiptiborði fyrir álfinn litla. Það voru því miklar aðgerðir hér á bæ við að breyta gestaherberginu og Viktor stóð sig eins og hetja með skrúfjárnið og leiðbeiningabæklinginn á lofti. Ikeaferðir eru komnar í stað barrölts i tilefni prófloka. Breyttir tímar. Hér gefur á að líta afraksturinn.
Norrmenn eru ekki jafn æstir og íslendingar i jólahaldi og jólakaupmennsku. Hér eru engar ofskreytingar á húsum, bara aðventuljós í gluggum og stökum sinnum jólastjarna til að lýsa upp skammdegið. Engar marglitar blikkandi perur og plastjólasveinar upp um alla veggi eins og er farið að tíðkast á Íslandi. Með öðrum orðum Jólakleppur svo ég vitni nú í föður minn. Við erum þó komin með eina seríu i stofugluggann, ég meina við erum nú einu sinni íslendingar.

Læt fylgja með sónarmyndir af álfinum sem komnar eru í ramma og upp á vegg eins og frumburði sæmir.

Jólakveðjur og saknaðarkveðjur yfir hafið

fimmtudagur, 29. nóvember 2007

Skemmtileg helgi á undan prófatörninni


Takk fyrir komuna Steinunn okkar! Það var æðislegt að fá þig og hlæja sig máttlausa við arineldinn, fara i spa og versla smá!
Grænalukka og Lúðastraumur eru nú staðsettir á topplista fröken Bergs enda vorum við hjúin dugleg að flagga því fegursta sem Noregur hefur upp á að bjóða...!

Nú eru ekki fleiri heimsóknir skipulagðar fram að jólum sem við munum ,eins og flestir vita, eyða hér í rólegheitunum í Norge. Viktor liggur þessa stundina í flensu og volæði sem búin er að herja á allt liðið eins og það leggur sig. Hann gat því ekki annað en lagst líka liðfélögum sínum til samlætis.
Ég er að fara í lokapróf í heimspeki/siðfræði á mánudaginn þannig að ég sit og tygg ofaní sjálfan mig kenningar og hugmyndir á norsku. Platón, Aristóteles, Beauvoir, Foot og Singer er það eina sem ég hugsa um... Veit ekki hvor hefur það verr....

Litli kúlubúinn er búinn að fara vel um sig og við fengum þau skilaboð í dag að hún er búin að skorða sig s.s hausinn er kominn niður.... hún er að verða reiðubúin þessi elska en spurningin er hvort verðandi foreldrar séu tilbúnir ...
Get ekki neitað því að tilhugsunin um sjálfa fæðinguna hrellir mig og hef ég því haft þá reglu á að hugsa barasta ekkert um það. Nú er hún samt orðin svo fyrirferðamikil í maganum á mér að ég er farinn að vilja fræðast um hvernig í ósköpunum ég á að fara að því að koma henni út.... úff ...

Jæja ekki meira í bili
Veikinda-og heimspekikveðjur yfir hafið

föstudagur, 23. nóvember 2007

Húsbóndinn kominn heim....

... og Steinunn vinkona á leiðinni! Já nú er lífið ljúft í Lúðaström.... og mjög fínt að fá Viktor heim, þreyttan en ánægðan eftir skemmtilega Íslandsdvöl!

Ég er komin 34 vikur á leið og því ótrúlega stutt eftir. Stundum finnst mér eins og fröken fix sé að reyna að brjótast út úr maganum á mér. Getum horft á magann á mér ganga í bylgjur, alveg ótrúlegt!!
Það er greinilegt að móðureðlið er farið að segja til sín því ég ákvað að baka kanelsnúða í dag ,i tilefni af komu Steinunnar, og er það í fyrsta sinn í 10 ár sem ég nota kökukefli. Ýtti því til hliðar fyrir annað mikilvægara á sínum tíma.
Gerði óvart uppskrift fyrir 100 manns og munum við því lifa á kanelsnúðum fram til jóla. Hér er afraksturinn... og já útlitið segir ekki allt....
Erum nú á leiðinni út á flugvöll að sækja frú Steinunni og ætlum að reyna að sýna henni allar bestu hliðar Noregs um helgina, svo hún muni bera hróður Lúðaström til íslands og einnig svo hún fáist til að koma aftur!!
Birti eina bumbumynd enn fyrir "bestemor" á Íslandi og hinn flugglaða aðdáanda í Flórída... og jú ykkur öll hin líka!!

Já, álfurinn stækkandi fer....

ha de bra kæra fólk
yfir og út

föstudagur, 16. nóvember 2007

"Ég bið að heilsa"


Nú andar suðrið sæla vindum þýðum,
á sjónum allar bárur smáar rísa
og flykkjast heim að fögru landi Ísa,
að fósturjarðar minnar strönd og hlíðum.

Ó! heilsið öllum heima rómi blíðum
um hæð og sund í drottins ást og friði;
kyssi þið, bárur! bát á fiskimiði,
blási þið, vindar! hlýtt á kinnum fríðum.

Vorboðinn ljúfi! fuglinn trúr sem fer
með fjaðrabliki háa vegaleysu
í sumardal að kveða kvæðin þín!

Heilsaðu einkum ef að fyrir ber
engil með húfu og rauðan skúf, í peysu;
þröstur minn góður! það er stúlkan mín.


Í dag er dagur íslenskrar tungu! Eins og flestir vita er hann haldinn hátíðlegur á sjálfum fæðingardegi skáldsins Jónasar Hallgrímssonar. Þar sem ég sit nú hér alein í kuldanum í Lúðaström fannst mér við hæfi að birta ofangreint ljóð, því jú jú ég bið auðvitað að heilsa heim í heiðardalinn!!

Viktor er farinn frá mér (eða á ég kannski að dramatísera þetta og segja "okkur") yfir helgina í gleðina á Íslandi. Ég er hins vegar föst hér en ætla ekki að leggjast í neina sjálfsvorkunn af þessum sökum, ónei.... ég er búin að fullbóka læruplan helgarinnar en ritgerðarskrif eru þar efst á baugi. Ég er að skrifa lokaritgerð í seinni kynjafræðikúrsinum á þessari önn og mun hún fjalla hvort nútímasamfélagið hafi jákvæð eða neikvæð áhrif á stöðu kynjanna í dag. Spennandi ég veit....
En fyrir þá sem ekki vita þá er ég búin að ná fyrsta kúrsinum í minni stuttu háskólasögu og á því bara tvo eftir á þessari önn, Heimspeki og Kynjafræði frh.

Já, jávæðnin bara skín af mér þessa dagana þrátt fyrir einveruna og svo ekki sé minnst á kuldann mikla sem er farin að herja á Lúðaström af miklu afli. Ég lauk byrjendakúrs í arineldakveikingjum hjá Viktori áður en hann fór og á því að getað kveikt á þessari frumstæðu kyndingu eins míns liðs yfir helgina (mikil kynjaskipting hefur verið í þessum hluta húsverkana undanfarið). Það er orðið svo kalt að kerti og arinn fara af stað um miðjan dag og er síðan haldið gangandi allt kvöldið.

Krakkarnir í skólanum ráku upp stór augu þegar ég fór að kvarta yfir kuldanum hér og enda héldu þau að ég væri sönn víkingamær frá landi elds og íss og því allvön nokkrum frostgráðum. Ég varð því að skýra út fyrir þeim að á Íslandi er alltaf óveður, rok, rigning og slabb á veturna en hér er bara ,ógeðslega inn á beinum, nístingskalt alla daga en samt stillt. Svona ekta skíðaveður eins og maður man eftir síðan í gamla daga á Íslandi. Held að ég hafi ekki selt skólafélögum mínum neinar íslandsferðir með þessari ræðu minni varðandi íslenskt veðurfar.

Jæja ekki meira frá einbúanum í Noregi í bili...

Ha de

fimmtudagur, 8. nóvember 2007

Erum að verða barnvænni....

...með hverjum deginum. Við fengum Hildi Þurý Indriðadóttir til að prufukeyra íbúðina okkar. Eins og neðangreind mynd sýnir þurfum við að endurskoða ýmislegt. Hún kvartaði samt ekki og undi sér hið besta við að skoða dvd-safn heimilisins bak og fyrir.

Þökkum við Hildi Þurý kærlega fyrir vel unnin störf.

Þessa stundina sit ég inní stofu með fæturna upp í loft á meðan Viktor er að galdra eitthvað unaðslegt fram í eldhúsinu af lyktinni að dæma. Þetta kæru vinir eru kostirnir við að vera óléttur, smá auka dekur í hverdagsleikanum. Úti er grenjandi rigning og arininn kominn á fullt hér í stofunni. Jólalög eru byrjuð að hljóma í búðunum hér og er jólaskapið farið að láta á sér kræla hjá okkur báðum. Þó þarf fyrst að klára prófin og skila einni ritgerð enn. Viktor fær að taka sín próf hér í Noregi og erum við svo heppin að vera bæði búin á sama degi, 13.des.
Læt fylgja með eina bumbumynd vegna mikilla áskorinna, 30 vikur kæru vinir og fer stækkandi..... Þarna inni lætur litla snúllan fara vel um sig, ótrúlegt!!

Takk fyrir hlýjar kveðjur, skemmtileg skilaboð halda manni gangandi i vetrarmyrkrinu!
Maturinn a la´Viktor tilbúinn... eigiði gott kvöld allir saman!

sunnudagur, 4. nóvember 2007

Næst siðasti manuður arsins.... og endalok timabilsins

Fyrir nákvæmlega ári síðan steig ég fyrst á land hér í Lilleström grunlaus um hvað komandi ári mundi bera í skauti sér.
Nú er fyrsta (fótbolta) tímabil Viktors í Noregi lokið og er óhætt að segja að maður er fegin að þessu óheilla boltaári sé lokið. (vonandi...)
Meiðsli Viktors hafa einkennt dvöl okkar hér en sem betur fer hefur hann ekki misst móðinn í mótlætinu. Það sem drepur mann ekki styrkir og þolinmæði þrautir vinnur allar eru mottó ársins hjá okkur hjúum! Þó er úrslitaleikur bikarsins eftir næstu helgi en ekki líklegt að FÞ muni nota Viktor í þeim leik þannig að einbeitingunni er beint að næsta ári og tímabili.

Með barn í vændum og fámennt en góðmennt norskt jólahald framundan er notalegt að komin sér nóvember. Norski kuldinn er farin að nísta mann inn að beinum og arinnlykt liggur í loftinu í Lúðaström enda allir íbúar bæjarins með komnir með kyndinguna í botn á þessum árstíma að meðtöldum undirrituðum. Mjög sjarmerandi og róandi að hlusta á snarkið í eldinum á kvöldin, sem fara mest í lærdóm þessa dagana vegna þess að prófin nálgast óðfluga.

Binni og Halla Guðrún eru búin að vera hér síðan á fimmtudag og komu klyfjuð af góssi frá farsælda fróni fyrir okkur. Það er búið að vera yndislegt að hafa þau. Í dag skoðuðum við byggðarsafnið á Bygdö og loppemarkaðinn á Grunerlokka. Ekta þægilegur og menningarlegur sunnudagur.
Nú eru 30 vikur liðnar af meðgöngunni og er óhætt að segja að róðurinn sé farinn að þyngjast. Spennan eykst eftir komu frumburðarins. Litli álfurinn viðist vera ánægður með dvölina í bumbunni og lætur finna fyrir sér helst á morgana og kvöldin.

knús frá okkur í Lilleström

miðvikudagur, 31. október 2007

Til hamingju


... með afmælið pabbi! 40 og hmmhmm í dag.... ekkert svo hár aldur fyrir verðandi afa... ekki allir afar verða að vera gráhærðir með staf...allaveganna ekki þú!

Láttu konunar á heimilinu stjana við þig í tilefni dagsins

Kveðja frá okkur hér í Lúðaström

þriðjudagur, 23. október 2007

Lif og fjör við Litla straum

Þótt að loftslagið hér i Lilleström hefur kólnað til muna upp á síðkastið þá hafa síðustu vikur yljað okkur lopaokkunum um hjartarætur. Vinir og vandamenn hafa nefninlega ekki getað fengið nóg af Lilleström (eða eru það íbúarnir sem heilla...?) og gestaherbergið verið fullbókað.

Fyrst stigu á land 3 yndisfagrir sveinar, tveir frá okkar ástkæra fróni og einn frá borg er kennd er við Gauta. Þrátt fyrir ólíkar ferðavegalengdir hjá þeim var sá síðarnefndi helmingi lengur á leiðinni þökk sé skandinavísku lestarkerfi.

Piltarnir fengu auðvitað að bera þjóðarstolt norrmanna augum, sjálfan Holmenkollen, Kalli Jói var genginn þvert og endilangt, Ákabryggja skoðuð ásamt því að póker var spilaður langt fram á nótt á Alexander Kiellandsgötunni. Næturlíf Oslóarborgar (og Lúðaström) var einnig skoðað og Sigmundur sýndi snilli sína á gítarinn okkur til mikillar ánægju.

Ekki amalegt selskap þetta .... myndarlegir! Óviðjafnanlegir herramenn hér á ferð... Takk fyrir komuna kæru piltar og komiði fljótt aftur! Ástina er að finna í Lúðaström....!

Móðir mín og faðir komu síðan í frábæra helgarferð til okkar!!

Faðir minn var með mikið prógramm enda um 20 ár síðan hann var síðast í skíðaferð hér í Noregi. Náðum við þó að uppfylla allar hans óskir og höfðum gaman af.
Við fórum meðal annars í hinn fagra Vigelandgarð þar sem þessi fína mynd var tekinn af þessari óléttu við nákvæma eftirmynd af fullvaxta fóstri..... 2 mánuðir to go....!!

Það var mjög skrýtið (sorglegt) að kveðja hjónakornin vitandi það að ég mun ekki sjá þau aftur fyrr en sú stutta ákveður að koma í heiminn, nánar tiltekið árið 2008.... það var því stutt í tárin hjá þessari óléttu við kveðjustundina á Gardemoen.

Takk fyrir komuna mamma og pabbi... það var algjör vítamínsprauta að fá ykkur!!!
Og pabbi... við bíðum spennt eftir að þú tilkynnir stofnun aðdáendaklúbbs Lúðastraums á Íslandi enda vitum við að bærinn setti sitt mark á sál þína!

Knús yfir hafið frá okkur og litlu fröken fix sem virðist vera með sparkhæfileika föður síns í blóðinu... hmm hmm!

miðvikudagur, 17. október 2007

Snikudyr herja a Osloarbua

Það er gripið um sig mikið varúðarástand hér á Oslóarsvæðinu.
Sníkjudýr fundust i vatnsbólinu sem sér íbúum höfuðborgarsvæðiðsins fyrir vatnsforða og því er búið að setja borgarbúa í allsherjarvatnsbann. Hélt að svona gæti nú ekki komið fyrir á vestlægum slóðum. Súreallískt og tökum við íslendingar okkar unaðslega tæra íslenska vatn sem alltof sjálfsögðum hlut.
Viktor fékk sem betur fer að heyra þetta á æfingu snemma í morgun og þegar ég mætti í skólann voru stórir rauðir varúðarmiðar út um allt. Einnig hefur heilbrigðiseftirlitið hér send út fjöldapósta á vefföng fyrirtæka og skóla með varúðarráðstöfunum.
Ekki er leyfilegt að drekka vatnið, bursta tennurnar (sem við þó gerðum bæði grunlaus í morgunsárið) eða nota vatn til matlagningar nema vatnið hafa verið soðið i minimum 3.mín.

Fólk er strax byrjað að hamstra vatn í búðum og þegar við skötuhjúin fórum að versla áðan var allt vatn horfið úr hyllunum nema við náðum að grípa síðustu tvær hálfslítra flöskurnar.
Ekki er vitað hvað bannið mun standa lengi yfir annars en fyrir minn smekk þá setur þetta stóran svartan blett á norska vatnið. Ekkert sérlega traustvekjandi. Ég mun því líklega standa og sjóða vatn á flöskur um helgina ... gaman...

Ætlaði bara rétt að kasta kveðju og láta vita að við erum öll (3) sníkudýralaus og pössum okkur vel á vatninu.
Annars er bara mikið skilastress í skólanum hjá mér, 3 ritgerðir fyrir klukkan 14.00 á föstudaginn. Því er unnið fram á nótt þessa dagana og bloggið verið í undanhaldi.

Ha de frá vatnsleysingjunum i Lúðaström

laugardagur, 6. október 2007

Höfðinginn sa....


Afi KjÓl heiðraði okkur með nærveru sinni síðastliðna viku. Vafalaust með þægilegri gestum sem við höfum fengið, enda afi með prógramm fyrir alla daganna. Hann náði að gera og sjá það helsta sem Oslóarborg hefur upp á að bjóða og allt gerði hann fótgangangandi með kortið að vopni. Megi aðrir ferðalangar taka hann til fyrirmyndar.
Afi fyllti okkur af ýmsum fróðleik um allt milli heima og geima á meðan dvöl hans stóð.
Í gærkvöldi fylgdu við svo honum að hafnarbakkanum þar sem kappinn silgdi með ferju Color Line út Oslóarfjörðinn í kvöldsólinni. Skagen og Kaupmannahöfn eru næstu áfangastaðir afa í þessu mikla ferðalagi.

Afi Kjartan... takk fyrir komuna og vertu velkominn aftur hvenær sem er!!

sunnudagur, 30. september 2007

Tap.. risa tap

Lsk 1 - 5 Brann

Gulu fuglarnir steinlágu fyrir íslendinga- og topp liðinu frá Bergen.

"xxxxx xxxxxxxx" eins og þjálfaraefni hinna gulu er kallaður hér á Alexander K. götunni ákvað að Viktor væri best geymdur á bekknum við lítinn fögnuð okkar!

Þetta var þó hressandi leikur með nær fullum leikvangi af áhorfendum og fullt af flottum mörkum.

Hefði bara vilja sjá okkar mann inná bjargandi málunum því þar á hann heima.....

Næturlif Osloar kannað og heimsoknarhryna i Luðaström



Loksins var látið verða af því að við íslensku (+ ein norsk) stúlkurnar í Oslóarsvæðinu hittumst. Farið var á einn vinsælasta tapasbar borgarinnar og svo tók við örlítill könnunarleiðangur um bestu barina.
Rosalega var gott að fara aðeins í djammgírinn og fékk ég mikla athygli út á kúluna (sem stækkandi fer). Fataskápurinn hefur skroppið saman síðustu daga en á móti kom að ég hef sjaldan verið jafn afslöppuð að gera mig til. Enda skipti öllu að litli álfurinn mundi láta sér líða vel. Ákveðið var að gera ofangreindan viðburð að mánaðarlegum hitting og mun ég reyna að láta sjá mig á meðan ég er ekki offyrirferðamikill.

Mikil heimsóknarhryna hefur nú skollið á Lúðaström, Halli og Berglind eru búin að vera hjá okkur síðan fyrir helgi en munu kveðja Noreg á morgun. Þá mun afi KJÓL heiðra okkur með nærveru sinni en heldur svo áleiðis til Skagen og Kaupmannahafnar. Því næst munu KR félagarnir Simmi og Bjöggi fagna sæti síns liðs í Landbankadeildinni með leiðangri til Norges við mikinn fögnuð okkar hér. Um leið og þeir kveðja koma síðan mínir ástkæru foreldrar og munu dvelja hjá okkur yfir langa helgi....

Já það mun vera fjör hér á Alexanders Kiellandsgötu næstu vikurnar sem við tökum fagnandi og mega fleiri taka sér ofangreinda einstaklinga til fyrirmyndar!!

Í kvöld munum við halda á einn aðalfótboltaleik tímabilins því LSK tekur á móti toppliði deildarinnar Brann klukkan 20.00. Uppselt er á leikinn fyrir löngu síðan og býst ég við mikillri stemmingu. Viktor mun verma bekkinn og allaveganna mun hann reyna að gera það eftir bestu getu, hvort tækifærið gefist i kveld en svo allt önnur saga.

Kveð með einni góðri af mér og Jóhönnu síðan á föstudagskvöldið

Ha de

föstudagur, 21. september 2007

Takk fyrir innlitið


Signý og Palli komu okkur að óvörum til Noregs fyrir stuttu síðan. Skötuhjúin voru í helgarferð til Lopasokkalandsins í fyrsta sinn og lagðist hin dimma Oslóarborg vel í hjúin.
Við og Halla Guðrún náðum að hitta þau í kaffi ásamt smá spássitúr áður en þau héldu á vit næturlífs Oslóar í boði vinnu Signýjar.
Signý mundi eftir að setja að setja filmu í myndavélina og var svo góð að senda okkur sýnishorn af útkomunni sem birtist hér til að setja smá lit á síðuna.

Takk fyrir okkur!

fimmtudagur, 13. september 2007

Cogito, ergo sum

Það passar ekkert betur en sitja i stærsta bíósal Oslóarborgar sem gengur undir nafninu Colosseum og hlusta á áhugaverðan fyrirlestur um heimspekinginn Descartes. Hann er sá fyrsti sem hefur vakið áhuga minn og í fyrsta sinn í langan tíma sem ég les kafla í heimspekibókinni minni án þess að geispa. Mér fannst líka ótrúleg grátbroslegt þegar kennarinn var alltaf að tala um að Descartes "frös ihjäl i Stockholm"...greyið!
Ofangreindur kuldaboli er farin að láta á sér kræla hér í Norge eftir frekar heita helgi. Halla Guðrún heiðraði okkur með nærveru sinni sem var mjög notalegt enda lítið sem maður þarf að gera á heimilinu þegar Halla Guðrún er nálægt. Hún gaf meðal annars svölunum okkar þessa fínu andlitslyftingu enda voru brúnu uppþornuðu blóminn á svölunum okkar blokkinni til skammar. Áttræða konan sem býr við hliðná okkur brosti til okkar í fyrsta sinn þegar við vorum að planta blómum, ein ánægð að við ákváðum loksin að skipta. TAKK FYRIR KOMUNA HALLA.

Annars eru bara þrjár ritgerðir sem ég þarf að skila í þessum mánuði þannig að ég sit sem fastast við tölvuna þessa dagana. Viktor æfir og æfir og er búinn að vera að fá stjörnur í dagblöðunum hér fyrir frammistöðu sína í varaliðsleikjunum. Þetta virðist því allt vera á réttri leið en hann segist vera orðinn um 90% góður í ökklanum. Þá er bara að bíða eftir að hann hljóti náð þjálfarnas í komandi leikjum en Lilleström er í mikilli toppbaráttu við Brann á lokaspretti deildarinnar. Því er aldrei að vita hvenær eða hvort tækifærið muni gefast á þessu ári.
Litli sprelligosinn er að hafa það mjög gott og er búin að velja kennslutíma mína sem tíma leikfimisæfinga og heljarstökka. Get ekki varist brosi þegar allt fer á fullt i annars alvarlegu umhverfi. Þetta verður raunverulegra með hverjum deginum og erum við nú byrjuð að huga að barnadótakaupum enda ekki lítið sem þessi litli álfur þarf á að halda.

Jæja ætla ekki að hafa þetta lengra í bili.

Ha de

mánudagur, 3. september 2007

Filosofisk filosofia

Þegar ég lagði fyrst heim heimspekinnar fyrir mér var ég ekki skriðin yfir tvítugt og staðsett í hinu verndaða umhverfi menntastofnunarinnar við Sundin. Kennarinn minn hét grísku nafni og lagði sig allan fram við að sýna mér að þetta fag hentaði ekki rökhugsuðinum mér. Ég einsetti mér að eftir að hafa náð blessaða stúdentsprófinu mundi heimspekibækurnar fara uppá hyllu til þess eins að safna ryki. Ég, Platón, Aristóteles og Descartes eigum nákvæmlega núll sameiginlegt.
Ekki datt mér þá í hug næst mundi ég sitja í 1000 manna fyrirlestra sal með 999 ókunnugum hlustandi að tveggja tíma fyrirlestra um ofangreinda óvini mína á NORSKU. Já, núna get ég sagt að ég hefði átt að hlusta betur á grískættaða kennarann í den. Hann talaði allaveganna mitt eigið tungumál.
Sænska og Norska eru mjög svipuð í rituðu máli en talmálið getur verið flókið enda mállýskurnar hér óteljandi. Stundum held ég í alvörunni að fólk sé ekki að tala norsku heldur bara að syngja eitthvað lag. Ég hef sjaldan einbeitt mér jafn mikið í kennslustundum. Vonandi skilar það sér í lok annar.

Dagurinn í gær var leiðinlegur, Viktor var í Stavanger, leikurinn fór 1-1, Viktor fékk ekki að koma inná, ég keyrði fram á tvær rottur á stærð við ketti á leiðinni heim frá Osló í gærkvöldi, ein var dauð og hin var sprelllifandi. Var með ógeðishroll niðrá bak restina af leiðinni.

Eina góða við daginn í gær var að elsku besti Afi minn fyllti 75 ár í gær!! Til hamingju með daginn elsku (lang) Afi ***

ha de

sunnudagur, 2. september 2007

Litið stelpuskott mun það verða... (örugglega)

..og ég er búin að halda það allan tímann. Ljósmóðirin sagði að í flestum tilvikum hefði mamman rétt fyrir sér, greinilegt að það byrjar strax enda löngu vitað að mamma veit alltaf best.
Þetta er samt aldrei 100% öruggt og margir búnir að deila með okkur sögur af fólki sem fékk að vita vitlaust í sónarnum.

Við fengum að sjá spítalann í fyrsta skiptið á þriðjudaginn... hann er STÓR og yfirþyrmandi. Gott að fá smá tíma til að melta hann og venjast tilhugsuninni um að þurfa að dvelja þar. Ljósmóðirin var norskumælandi finni og Viktor bað um þýðingu fyrir öllu sem hún sagði. Mjög fyndin tungumála blanda.
Litli álfurinn var ekkert par hrifin af afskiptaseminni og lét sko aldeilis finna fyrir sér á meðan skoðuninni stóð. Í hvert skipti sem ljósan ýtti sparkaði hún á móti. Karaktereinkennin komin strax og frábært að fylgjast með. Ljósmóðirinn sagðist sjaldan hafa séð jafn aktívt barn eftir bara 20 vikur.

Annars er lífið bara búið að vera ljúft síðustu daga. Viktor er komin í flott form og gengur bara vel á æfingum.
Í morgun lagði hann af stað til Stavangurs og mun vera þar fram á Mánudag. Uwe Rösler, þjálfarinn sem keypti Viktor til Lsk er að þjálfa Víking Stavanger núna og Tom Nordlie núverandi þjálfari Lsk var að þjálfa Víking síðasta sumar. Viðureign kvöldsins er því ekki endast barátta um annað sætið heldur líka ákveðin sýniþörf þjálfara.

Ég mun leita skjóls hjá Indriða, Jóhönnu og Hildi litlu í kvöld enda ekki par gaman að vera aleinn í Lúðaström. Þar ætla ég að horfa á leikinn sem byrjar 20.00 og vona það besta. Tækifærið hlýtur að vera á leiðinni.

Góða helgi allir saman

þriðjudagur, 28. ágúst 2007

19 vikur og 5 dagar



Áætlaður fæðingardagur 18.01.08

og kynið komið í ljós.........

Getiði nú.....?!

sunnudagur, 26. ágúst 2007

"Draumur hvers þjalfara"



Í kvöld er heimaleikur LSK við lið Álasunds. Liðið er neðarlega í deildinni á meðan gulklæddu fuglarnir frá Lúðaström eru sem stendur í öðru sæti. Leikskrá dagsins inniheldur þetta fína heilsíðu viðtal við draumabarnið frá "Sagoöja" eins og þið sjáið.
Þar er stiklað á stóru í ferli Viktors og vitnað í orð Magnúsar Gylfasonsr þjálfara Víkings um að Viktor sé draumur hvers þjálfara, frekar skondin fyrirsögn.

Einnig er ein millifyrirsögnin "Ska bli far" þar sem hann segist bíða með öndina í hálsinum eftir janúarmánuði og fæðingunni miklu... blaðamenn eiga það til að ýkja aðeins en samt sem áður gaman að lesa það!

Í dag er sól og blíða og er ég þvi að spá í að heiðra leikvanginn með nærveru minni í þeirri von um að Viktor fái að koma inn á.
Á morgun mun hann allaveganna spila í varaliðsleik sem er klukkatíma flug í burtu. Loksins fær hann að sjá meir af Noregi en bara höfuðborgarsvæðið.

Ætla nú að fara að snúa mér aftur að lestri .... langaði bara að deila þessu viðtali með ykkur!

Ha de

föstudagur, 24. ágúst 2007

Hitabylgja undir lokin

Þessa dagana er búið að vera hreint ótrúlega gott veður... 30 stiga hiti og heiðskírt. Norska sumarið ætlar greinilega að kveðja með stæl.
Seinni æfingar dagsins hjá Viktori eru því frekar strembnar og einkennast mest af vatndrykkju (held ég). Hann er orðin frekar dökkur á hörund og það fyrsta sem hann gerir þegar hann kemur heim er að metast við mig um hvor er brúnni. Ég er þekkt fyrir maraþonsólbaðsiðkun og læt því ekki mitt eftir liggja. Saga femínismans í bland við Annað kyn eftir hina þekktu Simone Beauvoir hefur því verið lesið útí garði með olíjuna mér við hlið.... já það er gott að vera í skóla!!
Ekki þar með sagt að námið sé leikur einn enda strax búið að demba á manni ritgerðarskilum og munnlegum ræðuhöldum... kvíði nett fyrir síðari hlutnum en ég er bara að reyna að tala við Norrmenn eins mikið og ég get til að æfa mig.

Annars eru nú meðgangan mikla hálfnuð (19 vikur) og við fórum til læknisins í gær. Allt leit afbragðs vel og hjartslátturinn hjá álfinum litla kraftmikill (eins og læknirinn sagði sem talar alltaf barnið sem karlkyns tilvonandi fótboltastjörnu).
Kúlan er í minnsta lagi á "meðalkúrfunni" enda ekki við öðru að búast þegar foreldranir eru svona smávaxin.
Svo er bara bíðum við spennt eftir næstkomandi þriðjudegi.

Erum að fara að taka okkur á í myndatökumálum enda frekar slöpp í því undanfarið...

kveðjur yfir höfin

Ha de bra

föstudagur, 17. ágúst 2007

Biðin mikla ekki a enda enn

Kæra fólk!

Mér þykir miður að þurfa að færa ykkur engar fréttir af 5 mánaða sónarnum í dag... tímanum okkar var nefninlega FRESTAÐ. Ástæðan fyrir þessum tilfæringum eru hins vegar ÁNÆGJULEGAR því loksins er Viktor komin inn í liðið ( eða hóp ) fyrir bikarleik Lilleström við Oslóarliðið Fc Lyn á sunnudaginn. Eftir næstum því 5 mánaða meiðslavesen er ekki annað en hægt að gleðjast yfir þessum fréttum. Það var því ekki hægt að biðja um frí á síðustu æfingu fyrir leik fyrir sónarinn.
Við mæðginin/mæðgurnar gáfum þessu mikinn skilning. Næsti tími er 28/8 klukkan 19.30 á staðartíma... honum verður EKKI frestað!! Enda spenningur mikill hér á bæ. Þessi tími hentar okkur mjög vel þar sem litli álfurinn er ávallt hinn hressasti á kvöldin og byrjaður að minna mjög á sig. Við búumst því við mikilli fimleikasýningu í sónarnum!

Annars er þetta búin að vera mjög viðburðarrík vika fyrir okkur bæði... Viktor er búinn að vera á brjáluðum æfingum enda virðist þjálfarinn hafa gert það að forgangsverkefni að koma honum í form sem er mjög gott. Hann er því búin að vera í fullri keyrslu ásamt furðulegum sjokkmeðferðum fyrir ökklann sem þó virðast vera að skila sínu.

Ég búin að vera í skólanum á hverjum einasta degi og líst bara vel á. Í fyrstu var þetta mjög yfirþyrmandi enda Háskólinn í Osló mjög stór með yfir 60.000 nemendur. "Campus svæðið" er eins lítill sér bær inní miðri Osló með búðum, leikskólum, læknaþjónustu o.sfrv.
Ég er búin að velja með fjölmiðlafræði með kynjafræðilegu sjónarhorni eða "Medievitenskap med ett kjönnsperspektiv" þannig að ég mun á endanum útskrifast með BA próf í fjölmiðlun eins og planið var frá byrjun. Mjög spennandi og vona ég að við náum að stansa í Noregi nógu lengi til þess að ég geti klárað.
Fyrsta önnin mín verður þó endast helguð femínisma og mannfræði ásamt einu kúrs í heimspeki. Spennó!

Bumbumyndir verða að bíða fyrir spennta áhorfendur því síða fyrir slíkar myndir er í vinnslu sem stendur... ég er samt búin að stækka ört síðan klakaheimsókn átti sér stað og get ég ekki falið kúluna lengur. Já ég er "þessi ólétta" núna.

Læt eina skemmtilega mynd af þremur ofurhugum sem létu lofthræðslu ekki á sig fá og drifu sig alla leið upp í turnin á Holmenkollen skíðstökkpallinum.


Höfum það á hreinu að langamman nánast skokkaði upp rúmlega 100 tröppur á meðan sú ólétta sat niðri á bekk.

Hafið það gott eða Ha de og go´helg

sunnudagur, 12. ágúst 2007

Hressandi helgarheimsokn


Litla fjölskyldan frá Kaupmannahöfn ákvað að heiðra okkur með nærveru sinni um helgina! Einstaklega skemmtileg og óvænt ánægja.
Frú Magnea lét ekki sitt eftir liggja og náði svo sannarlega að heilla okkur bæði upp úr skónum !!
Algjört sætabrauð þar á ferð !!!

Við náðum að sýna þeim í stuttum dráttum hvað Oslóarborg hefur upp á að bjóða sem og Litli straumur! Takk fyrir komuna elsku besta fólk... algjör vítamínsprauta í ágústmánuði!!

Viktor og Magnea eru rosa góðir vinir!

Annars blómstrum við bæði hér .... ég fram á við og Viktor í fætinum !!! Maginn á mér er á fullri ferð á kvöldin þar sem litli íþróttaálfurinn skemmtir sér við að gera heljarstökk og leikfimiæfingar... ekki beint líkur móður sinni í þeim efnunum!
Aldís varð svo þess heiðurs aðnjótandi að finna FYRSTA SPARKIÐ í gærkvöldi!! Það var alveg magnað og ótrúlega skrýtið.. Viktor bíður spenntur eftir næsta tækifæri!!

Framundan er viðburðarrík vika sem inniber skólabyrjun og sónarskoðun.. já það er hin eftirsóknarverða 5 mánaða skoðun á föstudaginn... vægast sagt spennandi vika!!

Látum vita ..... af okkur ( öllum þrem )

Ha de

fimmtudagur, 26. júlí 2007

Stiklað a staðreyndum

Jæja... kæra fólk! Loksins fréttir af lúðunum.

Veit ekki almennilega hvers vegna þessi máltregi hefur átt sér stað undanfarnar vikur ... ekki er hægt að skella skuldinni á atburðarleysi enda mikið búið að ganga á í lopasokkalífi. Og við sem héldum að við værum bara að fara að slaka á í sveitasælunni... ekki aldeilis. Það er einfaldlega búið að vera frá of miklu að segja.

Eins og flestir vita um er fjölgun væntanleg í janúar (það er búið að segja allt frá 8-23 við okkur þannig að það er best að halda sig bara við mánuðinn). Það hefur verið erfitt að þegja yfir þessu leyndarmáli síðustu mánuði og er það eiginlega stærsta ástæða hraðminnkandi bloggfærsla undanfarið. Mikið spennufall átti sér því stað hjá okkur hjúnum þegar komið var aftur út eftir heimferðina enda einkenndist þessi stutta heimsókn af miklu stressi.
Þetta er eiginlega hálf óraunverulegt ennþá og erfitt að ímynda sér að inní mér sé að vaxa lítið barn .... hálft ég og hálft Viktor... MERKILEGT!!
Ég fer stækkandi með hverjum deginum og Viktori hafði orð á því um daginn að það væri fyndið að sjá mig með "svona maga"!! Einmitt... hann sagði fyndið! Ég hló ekki..

Það er síðan gaman að segja frá því að ég komst inn í Oslóarháskóla og mun hefja nám í Kynjafræði ekki seinna en 14. ágúst næstkomandi. Kasólétt eftir tuðrusparkara í kynjafræði.... sjáiði kaldhæðnina í því? Hlakka mikið til að setjast á skólabekk á ný og ennþá meira til að komast að því hvað kynjafræði í raun og veru snýst um!!
Viktor heldur því fram að sambúð okkar muni líða mikið fyrir þetta "feministanám" og sér fram á heila önn fulla af klósettþrifum og þvottahúsferðum ásamt daglegum fyrirlestrum um jafnrétti kynjanna og kúgun kvenna gegnum tíðina. Væli með hans orðum. Sjáum til en annars eiga óléttuhormónarnir eflaust eftir að hafa sitt segja líka.

Viktor er allur að koma til og aðgerðin virðist hafa heppnast vel... hann er byrjaður á miklu undirbúningsprógrammi og eru menn að voanst eftir því að hann nái endanum af tímabilinu sem lýkur í Nóvember.

Heimsóknir hafa verið tíðar og góðar. Halla 1 kom hingað ásamt kaupglöðu systrum mínum og undu þær sér vel í Noregi á Munchlistasafni og H&M ferðum meðal annars. Æðislegt að fá mæðgurnar mínar í heimsókn og mamma lumaði á ýmsum góðum lausnum eins og henni einni er lagið. Megi þær koma sem fyrst aftur!!

Þessa dagana eru aðrar mæðgur í heimsókn, Halla 2 og Addý bestemor fara á kostum hér í lopasokklandi. Húsráðin koma til mín á færibandi frá þeirra viskubrunnum og er ég ekki búin að stíga fæti inn í eldhúsið síðan þær komu. Ekki amalegir gestir það!!

Þannig að ég get ekki sagt að við séum búin að vera að stjana við gesti allan þennan mánuð heldur er það frekar öfugt!

Sonja og Halli, ég biðst innlegrar afsökunar á þessari bloggleti og mun framvegis vera regla á þessi. Ber hins vegar litla ábyrgð á því sem hér mun koma fram enda hef ég litla stjórn á þessu mikla hormónaflæði sem fer hækkandi með hverjum deginum.

Ha de

p.s Mallie.. viltu senda mér mail á alfrun.pals@gmail.com... hotmailið virkar ekki lengur .. hlakka til að heyra í þér!!

þriðjudagur, 10. júlí 2007

Mæðgum skolar a land i Litlastraumi

Það bar helst til tíðinda í Litlastraumi að þremur pabbalausum mæðgum skolaði á land um hádegisbilið föstudaginn 7. júlí síðastliðinn. Þær voru orðnar langeygar eftir að heimsækja lúðana í samnefndum bæ. Svo óheppilega vildi til að heimamenn höfðu brugðið sér yfir hafið og voru rétt ókomnir. Systurnar tvær voru óvanar því að ferðast pabbalausar og alveg hissa þegar þær uppgötvuðu að þær voru allt í einu komnar heilar í höfn með lyklavöld að öllum herlegheitunum. Á ferðalögum þeirra hingað til hefur ratvísi pabba ráðið för og aldrei að vita hvort öll skilningavit á mömmu virki, hún er nefnilega bæði farin að tapa sjón og heyrn og verður að stóla á þefskynið þegar mikið liggur við. Nema hvað ... við runnum á lyktina og síðan hefur ekkert borið til tíðinda annað en það að debetkort mömmu rataði á einhvern yfirskilvitlegan hátt ofan í klinkbudduna hennar sem er stórhættulegur staður fyrir slíka gersemi og var umsvifalaust dæmt úr leik, stolið og horfið og hringt í ofboði í pabba sem hafði beðið allan daginn eftir SOS merki frá mæðgunum og fékk þarna kærkomna fullvissu um að það hefði verið óðs manns æði að hleypa þeim mæðgum einum yfir hafið. Ótti hans reyndist ástæðulaus því þegar ísþorsti mæðgnanna gerði vart við sig nokkrum klukkutímum síðar poppaði horfna debetkortið upp úr klinkbuddunni og þá mundi mamma að hún hafði panikerað við automatinn þegar hún keypti lestarmiðana til Osló enda lestin alveg að koma og debetkortinu dembt með klinkinu í budduna enda klinkið mun tryggari gjaldmiðill í sjálfsalanum þeim. Síðan þá hefur verið lygnt í Litlastraumi.
Þetta er gestapenni Lopasokka, HKjól

laugardagur, 30. júní 2007

Uppskurði lokið og klakaför undirbuin

Jæja þá er síðasta vika júnímánaðar að renna sitt skeið og er hún ekki búin að vera viburðarlítil. Ég ákvað að nýta heilann húsbónda áður en hann hélt í uppskurð og var því haldið í heljarinnar Ikeaferð með mæðgunum ( Sonju og Írisi) þar sem fest voru kaup á fallegt sófaborð og annað smálegt. Það var því heldur þungur og troðinn Polo bíll sem brunaði frá Ikea til Lúðaström með okkur fjögur og plús heilt sófaborð og annan varning. Talandi um fílahjörð í bjöllu. Útsöluþyrstir Norrmennirnir hlógu og bentu á meðan við vorum að raða vandlega í bílinn á bílaplaninu. Viktor erfir skipulagshæfileikana frá föður sínum. það er alveg greinilegt.

Á föstudaginn rann svo stóri spítaladagurinn upp og var ræs á línuna klukkan hálf 7 enda þurftum við að keyra í morguntrafíkinni til Osló. Klukkan 8 var Viktor lagður inn og kominn heim aftur um tvöleytið. Ég þurfti að opna búðina klukkan hálf tíu þannig að Sonju tók að sér ábyrgðina að keyra sjúklinginn aftur til Lúðaström, hefðum ekki getað verið án hennar!
Aðgerðin sjálf gekk eins og í sögu. "Ballerínubeinið" var á stærð við krónupening og var það brotið og laust inní ökklanum. Ekki skrýtið að Viktori er búið að vera svona illt. Læknarnir voru ánægðir með þetta og mun endurkoma Viktors í fótboltann vera fyrr en áætlað var eða eftir 4-6 vikur.
Greyið er samt sem áður með umbúðir á fæti og hækjur í hendi, getur því lítið gert annað en að liggja. Eins gott að nú eru tvær þjónustustúlkur á heimilinu til að stjana við strákinn. Hækjurnar munu þó líklega hverfa eftir viku eða svo.

Nú styttist í kærkomna heimkomu á okkar hálfu og erum að undirbúa komuna í íslensku blíðuna enda montsímtöl á heiman búin að vera þó nokkur síðustu daga!! Til hamingju með sólina Ísland. Af veður spánni að dæma munu hún samt hverfa fyrir okkur lopasokka um leið og við lendum og hið venjulega íslenska sumar taka við.... jess!!

Að lokum vil ég óska Langafa Sigurbirni innilega Til hamingju með 96 ára afmælið í dag... kærar kveðjur yfir hafið afi minn!!

Sjáumst eftir smá og þangað til....

HA DE

mánudagur, 25. júní 2007

Urhellisrigning hja lopasokkum

Nú er Sonja búin að vera hjá okkur síðan fyrir helgi, blessunin ákvað að gera ykkur klakabúum mikinn greiða og taka rigninguna með sér hingað. Skilst að heima sér búið að vera blíðskaparveður en hér er sko búið að vera skýfall alla helgina. Greyið Sonja... vonandi fer Noregur að sýna sitt rétta andlit í bráð.

Íris litla er orðin mikill skemmtikraftur og heldur uppi miklu fjöri hér á heimilinu. Talar, hjalar og leikur við hvern sinn fingur. Gaman að fá svona fjörkálf í heimsókn.

Eins og flestir vita er lokins búið að finna út hvað er að Viktori greyinu. Hann virðist vera með "ballerínubein" í ökklanum sem er brotið. Það eru ekki allir svo heppnir að vera með þetta einstaka bein þannig á föstudaginn mun Viktor fara í uppskurð g beinið fjarlægt. Gaman að segja frá því að þessi meiðsl eru algengust hjá ballerínum. Einmitt!! Endurhæfingin tekur svo 6-8 vikur en sem betur fer mun kappinn alveg geta æft og haldið sér í formi á meðan.

Nú er vika í að við komum heim og bæði farin að hlakka mikið til. Telma vinkona er svo mikill engill að hún bauð okkar fínu íbúðina sína á Laufásveginum. Yndi...!! þannig að við verðum í miðbænum á meðan við erum á Íslandinu góða.

Að lokum vil ég óska afmælisbarni dagsins innilega til hamingju með daginn!!!

Höldum upp á það alla næstu viku....kossar og knús yfir hafið!!

Ha de

mánudagur, 18. júní 2007

Pönnsuparti.. fyrir tvo takk!!

Til að sýna það og sanna að við erum orðin búrsleg ákváðum við að birta hér myndir af okkar fyrsta pönnukökubakstri!! Já þið eruð að lesa rétt.. við ákváðum að baka íslenskar pönnukökur á venjulegum mánudegi. Verkaskiptingin í eldhúsinu var líka mjög jöfn, ég hrærði deigið og Viktor sýndi snilli sína með pönnuna!! Fyrstu 10 pönnukökurnar fóru beinustu leið í ruslið þó enda pönnukökubakstur listform að mínu mati. Ömmur Íslands eiga mikla virðingu skilið fyrir að hafa gert þetta án þess að blikna frá örófi alda.
Að lokum tókst okkur þetta og þjóðhátíðardaguri Íslands var haldinn hátíðlegur (reyndar degi of seint) með fámennu en góðmennu pönnsupartí í Lúðaström. Næst þorum við líklega að bjóða fleirum...

ha de

föstudagur, 15. júní 2007

Bursdag i dag


Til hamingju með afmælið elsku besta Sonja !! Við munum skála fyrir þig í kvöld og hlökkum til að fá ykkur mæðgur til okkar eftir eina viku !!

*** knús

Einnig viljum munum við skála fyrir Kristjáni frænda Viktors sem einnig fyllir ár í dag... Til hamingju með daginn !!

Hipp hipp húrra

fimmtudagur, 14. júní 2007

Drunur og þrumur

Í nótt vöknuðum við upp við háværar drunur, það var eins og 10 flugvélar væru í lágflugi yfir húsinu. Eins og hendi væru veifað skall svo á þessi svakalega rigningarDempa ( með stóru D). Það var alvöru útlandabragur yfir rigningunni sem var einsog girnileg sturta á götum Lúðaström. Kærkomið regn eftir mikið og gott þurrkutímabil.

Nú er því hitabylgjunni aflétt og viftan komin inní skáp. Eigum örugglega (eða meira vonandi) eftir að þurfa að nota hana aftur seinna í sumar.

Viktor er allur að komast í lag og náði meira að segja að spila sinn fyrsta leik í 2 mánuði um daginn. Hann stóð sig mjög vel að mínu mati, átti góðar stungusendingar og nokkur skot á markið.( er að spá í að leggja íþróttablaðamennsku fyrir mig) Eitthvað vantar þó upp á að hann komist í betra form en vonandi verður það komið eftir fríið í Júlí. Það fer að koma tími á það að hann fái að setja sinn svip á norska knattspyrnu. Lilleström er sem stendur í 2 sæti deildarinnar eftir 3-1 tap gegn Brann á sunnudaginn.

Ég er loksins búin að klára alla pappírsvinnu vegna skólamála og umsóknin mín með einkunnum komin inn í kerfið. Það er búið að vera mikið stress og Norrmenn ekkert sérstaklega þjónustulundir. Fólk er hins vegar búið vera að hræða mig og segja að líkurnar á að komast inn í námið séu ekki hliðhollar mér en ég fæ ekkert að vita fyrr en 26.júlí. Þangað til er bara að vona það besta og undirbúa plan B.

Annars er hversdagsleikinn góður í Lúðaström...

Kram

sunnudagur, 10. júní 2007

Bongobliða

Noregur hefur síðustu daga komið okkur mikið á óvart með svokölluðu spánarveðri... ekki poppaði 30 stiga hiti og sól upp í hugann á mér þegar við fluttum hingað í vetrarhörkunni. En þessi fyrsta vika í júní hefur slegið öll hitamet ( síðast var svona heitt árið 1880 samkvæmt VG - blaðinu) og á föstudaginn sýndi hitamælirinn í bílnum heil 35 stig í skugga!! Ég er ekki að ljúga... og eru við lopasokkarnir búin að vera dugleg að senda montskilaboð heim í rokið og rigninguna. Það er alltaf klassískt.

Viktor er ekki fíla þennan hita enda segist hann svitna í hverju einasta skrefi og fékk hann mígreni á æfingu um daginn... ekki mundi ég vilja æfa úti í þessum hita.. en enginn miskunn hjá Nordlie þjálfara sem pískar strákana áfram sama hvað!!
Við þurftum meira að segja að kaupa viftu inn á heimilið til að gera lífið í hitanum bærilegra fyrir okkur og sofum við því undir köldum blæstri sem er ómissandi. Einnig fékk ég loksins tvo alvöru sólabaðsstóla á svalirnar okkar þannig að ég geti sleikt sólina á meðan Viktor situr inní stofu við viftuna, hann er ekki sjúkur í að fara í sólbað. Þannig að sólarsjúkir eru velkomnir hingað til að nota hinn stóllinn, mér fer að vanta selskap í brúnkunni enda Viktor ekki að gefa mér mikla samkeppni!

Afmælisdagurinn minn var æðislegur, bongóblíða eins og venjan er á þessum merkisdegi. Gyða vinkona minnti mig á að gott veður á afmælisdag þýðir að maður hefur verið stilltur og góður á síðasta ári... þar hafiði það, ég var svoo stillt að veðrið ákvað að haldast í 10 daga og slá met ....!!
Viktor fórnaði sér í sólabað á ströndinni með mér og fórum síðan á indverskan stað um kvöldið.
Takk fyrir allar skemmtilegu kveðjurnar kæra fólk!

Við erum loksins búinn að panta okkur flug heim en áætluð koma er 2.júlí... þannig að verið viðbúin skyndiheimsóknum þessa stuttu viku sem við munum heiðrað klakann með nærveru okkar.

Heimsóknir til lopasokkalands eru að aukast og er gestaherbergið nánast uppbókað frá 22 júní til fyrsta ágúst gaman gaman!! Það mega fleiri fara að fordæmi Sonju systur Viktors sem pantaði sér far til okkar vikunni gagngert til að losna aðeins við íslenska rokið. Hún er væntanleg eftir 12 daga jess!!

Jæja ætla að fara að undirbúa morgunverð á svölunum enda of heitt til að borða inni...

Ha de bra

Kram

laugardagur, 2. júní 2007

Afmælisbörn dagsins


Til hamingju með daginn Afi Kjartan!!
Flottur á þessari mynd með fótboltadómararéttindin sín í hendinni... já kallinn leynir á sér!!

Hin gullfallega Magnea fyllir sitt fyrsta ár í dag!!! Til hamingju litla uppáhalds uppáhald.... ********

Hinn óborganlegi hárlæknir Jón Atli Helgasson á einnig afmæli í dag!! Til hamingju ***** vild við gæti verið með ykkur á skála í kampó í tilefni dagsins!!!

Einstaklega fríður hópur af afmælisbörnum hér á ferð

Knús

þriðjudagur, 29. maí 2007

Allt er a tja og tundri

Ég hef þjáðst af nettum bloggleiða undanfarna daga en mér skilst að þetta hráji flesta "bloggara" en líður skjótt hjá... innilegar afsökunarbeiðnir í þessu sinnuleysi frá lopasokkalandi!!

Hér hefur mikið gerst síðan síðast.. Halla Guðrún og Gísli Arnar eru búin að heiðra okkur með nærveru sinni þessa helgina. Það er því búið að afreka miklu m.a pallinn lakkaður og blóm kominn í potta. Hefði ekki gerst ef dugnaðarforkarnir hefði ekki litið við.. ekki skrýtið að þau eru búin að byggja hús!!
Einnig hafa þeir feðgar minnkað forgjöfina sína í heljarinnar golfferðum síðustu daga. Þau fara á í fyrramálið aftur heim með þessu nýja (og frekar sérkennilega en ódýra ) nætur/morgunflugi.

Ég er byrjuð að vinna sem er æði!!! En það er svolítið erfitt að byrja að standa svona allan daginn aftur og er ég frekar lúinn í lok dags... ( ég sem var í svo góðri þjálfun eftir 6 ár í Kringlunni)!! Þessi verslunarmiðstöð er ívið flottari enda bara 6 mánaða gömul og heitir House of Oslo. Mikið af fallegum innanhúsmunum þar!! Sakna nú samt fatalufsanna,

Viktor er byrjaður af æfa aftur með liðinu eftir sárar 7 vikur í meiðslum. Öllum til mikillar ánægju og gleði þó mest atvinnumanninum sjálfum!!! Hann var að fá þær fréttir í dag að Lilleström er með KR-ingum í riðli í Ervópukeppninni og mun hann því líklega koma til íslands í lok júlí til að keppa í Frostaskjóli. Miðað við gengi svarthvítu hetjanna undanfarið mun þessi leikur fara okkar mönnum í hag .... (þ.e.a.s Lilleström!)

Að lokum viljum við lopasokkar óska nokkrum afreksmönnum í familiunni til hamingju...

Sindra með leiklistargráðuna... jess innilega til Lukku!!

Hörpu með stúdentsprófin... þú varst víst langflottust á útskriftinni!!!

Kristjáni frænda með stúdentinn ... og gangi þér vel í Danaveldi!!

Melkorku frænku fyrir glæsilega útkomu á stúdentsprófunum!!

Ofangreindir eru allir velkomnir í útskriftarferð í norsku sumarblíðuna... ****


Ha de

laugardagur, 19. maí 2007

Þjoðerniskennd Norrmanna 17 mai

Þjóðhátíðardagur Noregs gekk í garð með pompi og pragt svo vægt sé til orða tekið. Klukkan 10 um morguninn voru við vakin með lúðrasveit og skrúðgöngu fyrir utan gluggan okkar. Það var mjög merkilegt að sjá alla lopasokkana þrama í kór í sértilgerðum lopasokkabúningum ( þjóðbúningum). Hefð er fyrir því hér að Norrmenn fá búninginn í fermingargjöf og eiga því allir yfir þeim aldri svona. Þetta magnaði bara þjóðhátíðaráhrifin.
Klukkan tvö um daginn hrukku við síðan aftur í kút í stofunni okkar en þá marseruðu tilvonandi stúdentar (það er kalllað russar á Norsku) framhjá glugganum með teknótónlist og flautur í kjaftinum. Ekki minni læti þá. Russarnir eru búnir að vera að "dimmtera" í mánuð og er þessi dagur rúsínan í pysluendanum fyrir krakkana... nú byrja prófin!
Um kvöldið fórum við í heljarinnar íslendingagrill hjá Gunnhildi og hér fyrir neðan gefur á að líta svipmyndir frá þessum degi.
Frábær dagur með sól og sumaryl....